Bandaríkjakonan Nina Kuscsik, sem ruddi braut kvenna í maraþonhlaupi, er látin 86 ára að aldri. Lést hún á sjúkrahúsi þann 8. júní síðastliðinn eftir langa baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn.
Kuscsik barðist lengi fyrir því að konur fengju að keppa í lengri hlaupum og fékk það loks í gegn árið 1972 þegar konum var formlega leyft að skrá sig til keppni í Boston-maraþoninu.
Að því var ekki að spyrja að hún vann Boston-maraþonið í flokki kvenna það ár.
Fimm árum áður hafði Kathrine Switzer lagt grunninn að því að Kuscsik gat rutt brautina og tekið þátt í maraþoninu án þess að konur væru formlega leyfðar. Var það því í óþökk karlkyns skipuleggjenda og þátttakenda, sem margir hverjir réðust að Switzer er hún var við keppni í maraþoninu 1967.
Kuscsik var afburða íþróttakona en hún varð ríkismeistari í New York í þremur öðrum íþróttum; hjólreiðum, skautahlaupi og hjólaskautahlaupi.