Mikael Aron Vilhelmsson er kominn áfram í úrslit efstu 16 á HM ungmenna í keilu sem fram fer í Helsingsborg í Svíþjóð um þessar mundir.
Á mótinu keppa drengur og stúlka frá flestum aðildarlöndum Alþjóðasambands keilunnar en frá Íslandi keppa Íslandsmeistararnir Mikael Aron og Olivia Clara Steinunn Lindén.
Mikael Aron kom sér upp í ellefta sæti undankeppninnar í dag en alls voru leiknar þrjár sex leikja rimmur í undankeppninni. Mikael Aron endaði með 219 stig að meðaltali.
Olivia endaði í 28. sæti undankeppninnar. Hún fékk 174,5 stig að meðaltali en 189 stig þurfti til að ná í 16-manna úrslit.
Í 16-liða úrslitunum verður leikið maður á mann og fara alls átta keppendur áfram. Mótið verður síðan klárað á laugardaginn.