„Ég er ótrúlega svekktur en á sama tíma stoltur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Fram, 36:33, í framlengdum undanúrslitaleik liðanna í bikarkeppninni í handbolta í kvöld.
Afturelding var undir nánast allan leikinn eftir að Fram skoraði fjögur fyrstu mörkin. Afturelding komst svo yfir í fyrsta skipti þegar 30 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma.
„Það var magnaður karakter í strákunum og þvílík þrautseigja. Við vorum í brasi framan af en komum okkur úr vandamálunum, jöfnum og komumst yfir í lokin. Þeir jafna og við erum svekktir.
Það voru nokkrar sekúndur og þetta er eins svekkjandi og það gerist. Þeir taka svo þrjú fráköst í fyrstu sókninni í framlengingunni. Við komumst þá lítið í sóknina og hann varði vel og Reynir var óstöðvandi. Þetta er eitt smáatriði hér og þar,“ sagði hann.
Gunnar var að sjálfsögðu ósáttur við byrjun sinna manna. „Það var stress í sumum og þessi byrjun var ekki það sem við ætluðum okkur. Það angrar mig hvernig við komum inn í leikinn og það tók 59 mínútur að vinna það til baka,“ sagði Gunnar.