Fram mætir Stjörnunni í úrslitum bikarkeppni karla í handbolta eftir sigur á Aftureldingu, 36:33, í mögnuðum í seinni undanúrslitaleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Réðust úrslitin í framlengingu. Fram lék síðast til úrslita árið 2021 en tapaði þá fyrir Val, 29:22.
Framarar byrjuðu með látum og skoruðu fjögur fyrstu mörkin á fyrstu fimm mínútunum. Afturelding svaraði vel og jafnaði í 5:5.
Framliðið tók hins vegar aftur frumkvæðið í kjölfarið, komst í 8:5 og var 1-3 mörkum yfir það sem eftir lifði hálfleiksins.
Munaði þremur mörkum í hálfleik í stöðunni 19:16. Markverðir beggja liða vörðu vel, þrátt fyrir mörg mörk í hröðum og skemmtilegum leik.
Afturelding minnkaði muninn í eitt mark eftir tíu mínútur í seinni hálfleik, 22:21. Var munurinn áfram eitt mark þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 24:23. Ívar Logi Styrmisson skoraði næsta mark á 49. mínútu og kom Fram í 25:23.
Mosfellingar svöruðu vel og jöfnuðu í 26:26 þegar níu mínútur voru eftir. Var það í fyrsta skipti sem staðan var jöfn frá því í stöðunni 5:5.
Fram svaraði með næstu tveimur mörkum og var staðan 28:26 þegar rúmar sjö mínútur voru til leiksloka. Munurinn var svo þrjú mörk, 29:26, þegar fimm mínútur voru til leiksloka.
Afturelding skoraði tvö snögg mörk í kjölfarið og minnkaði muninn í eitt mark, 29:28, og Harri Halldórsson jafnaði í 29:29 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.
Árni Bragi Eyjólfsson kom Aftureldingu svo í 30:29 þegar 30 sekúndur voru eftir. Var það í fyrsta skipti í öllum leiknum sem Mosfellingar komust yfir. Það dugði ekki til sigurs í venjulegum leiktíma því Dagur Fannar Möller jafnaði fyrir Fram fimm sekúndum fyrir leikslok og því var framlengt.
Fram var marki yfir eftir fyrri hluta framlengingarinnar, 33:32. Framarar komust svo í 35:32 í upphafi seinni hlutans. Tókst Aftureldingu ekki að jafna eftir það.