Óskamótherjinn er Afturelding og að mæta Hauki bróður

Leikmenn Stjörnunnar fagna í leikslok.
Leikmenn Stjörnunnar fagna í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

„Við spiluðum rosalega góða vörn og vorum agaðir sóknarlega að mestu leiti en um leið og við duttum niður þar þá refsuðu þeir með hraðaupphlaupum,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir að lið hans vann ÍBV og vann sér sæti í bikarúrslitaleiknum í handknattleik karla gegn annað hvort Fram eða Aftureldingu á laugardaginn.

„Gauti (Gunnarsson) er ekkert eðlilega snöggur fram. Mér fannst vörnin bara frábær í kvöld hjá okkur á sama tíma og við vorum með svör við vörninni þeirra,“ bætti Hrannar við í samtali við mbl.is eftir leik.

Þú talar um góða vörn hjá Stjörnunni í kvöld. Þið skorið samt 34 mörk í kvöld. Sóknin hlýtur líka að hafa verið góð hjá þínum mönnum ekki satt?

„Jú algjörlega. Við vorum agaðir þar og tókum góðar ákvarðanir sem skiptir öllu máli. Við vorum bara hrikalega flottir í kvöld og þetta er sennilega bara okkar besti leikur í vetur,“ sagði hann.

Þið voruð að slá út lið sem hefur ekki tapað undanúrslitaleik í bikar í um 20 ár. Þú hlýtur að hafa fundið eitthvað töfraduft sem aðrir þjálfarar eru ekki með. Getur þú uppljóstrað þeirri uppskrift til okkar?

„Nei ég get ekki útskýrt fyrir þér hvað það er. Hvort það hafi verið stemmningin eða hvað. Við höfum spilað tvisvar við þá áður í vetur og unnum annan leikinn hér heima sannfærandi en töpuðum naumlega í Vestmannaeyjum,“ sagði Hrannar.

Þið leiðið megnið af fyrri hálfleik með 1-2 mörkum. Maður beið alltaf eftir þessum kafla sem Stjarnan er gjörn á að ganga í gegnum þar sem þið gefið eftir líkt og gerðist gegn Haukum í síðustu viku. Er eitthvað sérstakt í ykkar undirbúningi sem gerir það að verkum að ykkur tekst að loka á að það gerðist?

„Nei svo sem ekki. Þetta snýst um að ná 60 góðum mínútum og við náðum því í dag. Þá erum við bara ofboðslega flottir. Það er alltaf stutt í drulluna eins og sagt er en í kvöld var þetta bara virkilega flott,“ sagði hann.

Ísak Logi Einarsson skorar 7 mörk og fiskar víti. Var planið að reyna leggja upp eins mikið og hægt var fyrir hann?

„Nei alls ekki. Ísak er bara búinn að vera okkar besti sóknarmaður í vetur og stíga ofboðslega mikið upp. Við erum bara með flotta og góða breidd í dag þannig að menn eru bara ferskir. Ísak er að starta alla leiki og spilaði fyrstu 20 mínúturnar í dag og fyrstu 15 í seinni. Menn þurfa bara að pústa og þá mæta aðrir ferskir inn og það var þannig í kvöld,“ sagði Hrannar.

Ef við tökum klisjuspurninguna. Hvort viltu frekar mæta Fram eða Aftureldingu?

„Við erum búnir að spila báða leikina við bæði liðin í vetur og tapa þannig að við getum ekkert verið með neinn óskamótherja. Eigum við ekki bara að segja Afturelding og mæta Hauki bróður,“ sagði Hrannar Guðmundsson að lokum í samtali við mbl.is en bróðir Hrannars er Haukur Guðmundsson leikmaður Aftureldingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert