Veistu hvað hljómar betur? Bikarmeistarar!

Ívar Logi stendur vörnina í kvöld.
Ívar Logi stendur vörnina í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ívar Logi Styrmisson átti góðan leik fyrir Fram er liðið tryggði sér sæti í úrslitum bikarkeppni karla í handbolta með sigri á Aftureldingu í framlengdum undanúrslitaleik á Ásvöllum í kvöld, 36:33.

„Ég var smá súr eftir að hafa klúðrað vítinu en strákarnir voru geggjaðir. Við höfum alltaf bullandi trú á okkur, sama hver staðan er,“ sagði Ívar í samtali við mbl.is eftir leik. Ívar klikkaði á víti þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma en það kom ekki að sök.

Afturelding komst einu sinni yfir í leiknum, 30:29, þegar 30 sekúndur voru eftir. Dagur Fannar Möller jafnaði fimm sekúdum fyrir leikslok og tryggði Frömurum framlengingu.

„Það breytti engu þótt þeir væru búnir að vinna sig inn í leikinn. Mér leið bara nokkuð vel. Við vorum með boltann og ég hafði mikla trú á því sem Einar var að stilla upp í. Ég hafði trú á að Reynir myndi taka rétta ákvörðun. Ég var meira að hugsa um að spretta til baka.“

Fram byrjaði með látum og skoraði fjögur fyrstu mörkin. Þeir komu því mjög vel stefndir í undanúrslitaleikinn.

„Ég var stressaður en ég vil nota stressið í eitthvað gott. Það þýðir að manni er ekki sama. Ég var dálítið spurnginn eftir annað hraðaupphlaup í röð. Ég vissi alltaf að þetta yrði leikur þótt við skoruðum fyrstu fjögur. Þeir eru drullugóðir.“

En hvernig hljóma bikarúrslit í eyrum hornamannsins?„Það hljómar helvíti vel. Veistu hvað hljómar enn betur? Bikarmeistarar!“

Fram mætir Stjörnunni í úrslitum á laugardag.„Þeir eru búnir að vera á skriði og tóku ÍBV stórt. Við þurfum að sýna okkar bestu hliðar. Við ætluðum að vera í öllum titlunum og við höfum verið að vinna okkur upp. Það er bullandi stjálfstraust í liðinu,“ sagði Ívar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert