Við verðum Íslandsmeistarar

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að taka síðustu tvö ár og fara út fyrir mynstrið. Töpum úrslitaleik í fyrra sem við höfðum ekki gert áður og núna dettum við út í undanúrslitum sem við höfum ekki gert í meira en 20 ár. Það er vont og ekki nógu gott,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson fyrirliði Eyjamanna eftir tap gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ spurður út í tapið í kvöld.

Kári hélt áfram: „Það er vondur seinni hálfleikur sem er að krota þetta upp fyrir Stjörnuna. Eitt varið skot á fyrstu 20 mínútum í seinni og við skorum bara 6 mörk á sama tíma.“

Stjarnan byrjar á því að skora tvö mörk í byrjun seinni hálfleiks og komast fjórum mörkum yfir í leiknum sem hafði ekki gerst áður fram að þessu. Mættu Eyjamenn illa stemmdir í seinni hálfleikinn?

„Mér leið ekkert hræðilega með hvernig Stjarnan var að spila. Það sem fór á markið hjá þeim fór í markið og það er alltof mikið að fá á sig 18 mörk í fyrri hálfleik. Við skorum 16. En að skora bara 6 mörk á fyrstu 20 mínútunum er bara ekki boðlegt í svona leik og við vorum alltof lengi að þráast við það sama í stað þess að breyta einhverju,“ sagði hann.

Ef við förum betur yfir fyrri hálfleikinn þá var munurinn bara 1-2 mörk, fáið fullt af tækifærum til að jafna og tekst að gera það tvisvar. Getið komist yfir nokkrum sinnum en það tekst ekki. Afhverju ekki?

„Við verðum að gefa markverði Stjörnunnar hrós fyrir hvað hann varði vel í dauðafærum. Sigurði Dan verður að hrósa fyrir frábæra markvörslu í seinni hálfleik,“ sagði Kári.

Í seinni hálfleik skora þeir fyrstu tvö mörkin, komast fjórum mörkum yfir sem verða síðan fimm, sex, sjö og mest átta mörk. Voru Eyjamenn búnir að gefast upp á þessum tímapunkti í ljósi þess að þeir virtust frekar andlausir?

„Ætli þetta hafi ekki bara haldist í hendur að við skoruðum ekki í sókninni og fengum alltaf á okkur mark í vörninni. Við prófuðum önnur varnarafbrigði en það gaf bara engan ávöxt, því miður,“ útskýrði hann.

Maður beið alltaf eftir þessu týpíska áhlaupi Eyjamanna í seinni hálfleik en það kom ekki. Kanntu skýringar á því?

„Ég er sammála því ég beið líka alltaf eftir áhlaupi frá okkur sem við erum þekktir fyrir,“ sagði Kári.

Vantaði Kára Kristján í liðið?

Það skal tekið fram að áður en Kári svaraði þá hugsaði hann sig um og glotti áður en hann svaraði.

„Já auðvitað. Ég meina ég er ógeðslega góður. Auðvitað söknuðu þeir mín. Það myndi ekki skipta neinu máli í hvaða liði ég myndi spila í á Íslandi, þeir myndu sakna mín,“ sagði hann léttur.

Bikarævintýrið er búið og nú tekur deildin við. Hvaða sæti stefna Eyjamenn á í deildinni áður en úrslitakeppnin hefst?

„Fjórða til fimmta sætið er eitthvað sem við getum komist í miðað við stigasöfnunin er. Það skiptir samt engu máli hvort við lendum í áttunda sæti eða fyrsta þegar úrslitakeppnin byrjar. Sagan sýnir það. Vonum að sagan verði með okkur í liði núna,“ sagði Kári.

Verða Eyjamenn Íslandsmeistarar?

„Við verðum Íslandsmeistarar,“ sagði Kári Kristjánsson að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert