Mér líður ógeðslega vel

Álfa Brá Hagalín með boltann í kvöld.
Álfa Brá Hagalín með boltann í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Mér líður ógeðslega vel,“ sagði Alfa Brá Hagalín leikmaður Fram í samtali við mbl.is eftir að liðið sigraði Val, 22:20, í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta á Ásvöllum í kvöld.

„Það var geggjaður stuðningur í kvöld og mér líður rosalega vel,“ bætti Alfa við. Hún var markahæst á vellinum í kvöld með sex mörk.

„Við erum búnar að æfa vel fyrir þetta og skoða þær vel. Það gekk upp hjá okkur í kvöld. Það hægðist aðeins á þessu hjá okkur í lokin en við náðum að klára þetta. Við komum rosalega vel stemmdar inn í leikinn og við ætluðum að sýna hvað við erum góðar.

Mér leið vel allan leikinn því við vorum með yfirhöndina. Þær nálguðust okkur kannski fullmikið í lokin en við náðum að klára þetta,“ sagði hún.

Alfa, sem er tvítug, var að vinna Val í fyrsta skipti á meistaraflokksferlinum.

„Ég vildi mjög mikið vinna þetta lið. Það kom einhver frétt um að við hefðum ekki unnið þær í þúsund daga og það er loksins komið. Það gerði okkur enn staðráðnari í að vinna.“

Fram mætir annaðhvort Gróttu eða Haukum í úrslitum á laugardag. „Þetta eru hörkulið sem eru að æfa hérna. Ég er spennt að sjá hvaða lið við fáum og ég er spennt fyrir laugardeginum,“ sagði Alfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert