„Þessi leikur fer frá okkur því við förum rosalega illa með upplögð marktækifæri,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 22:20 tap fyrir Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar á Ásvöllum í kvöld.
„Darija ver hátt upp í 20 bolta og er maður leiksins. Við erum að opna þær hvað eftir annað en þær voru líka góðar og þetta var járn í járn. Munurinn var Darija.
Við skutum illa á hana. Hún er frábær og atvinnumaður í handbolta og örugglega eini atvinnumaðurinn á Íslandi. Það eru þessi atriði sem skilur að.“
Þær skoruðu varla úr uppstilltum sóknarleik á okkur. Það var ekki vandamál. Við fórum rosalega illa með dauðafæri,“ sagði Ágúst um leikinn.
Framarar byrjuðu mun betur en Valsliðið gerði vel í að vinna sig inn í leikinn og komast yfir. Framliðið reyndist hins vegar sterkara að lokum.
„Spennustigið var ekki rétt. Það voru taugar. Þær komust svo inn í leikinn, komust yfir og voru með fín tök á þessu. Svo fór að síga í mannskapinn. Við vorum án Elísu og þetta var erfitt.“
Valur tapaði aðeins sínum öðrum leik af 51 í öllum keppnum. Ágúst er ekki sáttur með umræðu þess efnis að Valur eigi sjálfkrafa að vinna alla leiki.
„Valsliðið getur tapað leik eins og önnur lið og þessi umræða er óþolandi og hvernig fjölmiðlar og aðrir blása þetta upp. Það er verið að tala um einhverja breidd en bekkurinn minn er þriðji flokkur.
Við erum svo án Mariam, Morgan og Elísu. Það horfa allir á okkur og það verður allt vitlaust ef við töpum leik. Við hvílum okkur um helgina og svo berjumst við í deildinni og í Evrópukeppni. Við stígum upp úr þessu,“ sagði Ágúst.