Gunnar Magnússon var svekktur með tapið í kvöld gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta en á sama tíma gríðarlega stoltur af sínu liði þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik og spurði hann hverju munaði á tapi og sigri í kvöld:
„Þetta er einhver millimeter til eða frá. Eitt mark í lokin sem þeir skora og við ekki. Þetta er eitthvað eitt atriði sem munar um. Það er ekkert sem sker á milli þessara liða í kvöld en það féll þeirra megin sem er ógeðslega svekkjandi. En að sama skapi er ég ofboðslega stoltur af strákunum sem sýndu mikinn karakter að fara í gegnum alla þessa skafla. Ég er ótrúlega ánægður með þá.“
Afturelding er betra liðið í fyrri hálfleik og þið farið með 4 marka forskot. En þið spilið seinni hálfleikinn án Birgis Steins Jónssonar. Munaði mikið um hann?
„Já, þetta er okkar lykilmaður og þetta var slysalegt atvik, þetta rauða spjald. Þetta er erfitt atvik að eiga við því hann fær leikmanninn á svo svakalegum hraða á sig að það þarf mjög lítið til að þetta líti illa út. Ekkert við þessu að segja, en mjög slæmt að missa hann. En á sama tíma unnu hinir strákarnir vel úr þessu og stigu upp. Við vorum hársbreidd frá því að klára þetta.“
Einar Baldvin er með 11 varða bolta í fyrri hálfleik en tvo í seinni. 13 skot í heildina er alls ekki slæmt en veistu af hverju það er svona mikill munur á fyrri og seinni hálfleik hjá honum?
„Ég les þannig í þetta að vörnin datt niður í seinni hálfleik hjá okkur og Valsmenn fengu betri færi. Bjarni í Selvindi og Monsi stigu rosalega upp hjá þeim og fengu betri færi en í fyrri hálfleik og þá eru mínir markverðir að taka á móti erfiðari skotum til að verja. Vörn og markvarsla helst rosalega í hendur.“
Jákvæði punkturinn hlýtur samt væntanlega að vera sá að þið eruð nær því að vinna Val á Hlíðarenda heldur en Valur að vinna Aftureldingu að Varmá.
„Jú, og nú er það bara næsti leikur að Varmá og þetta er hörku einvígi og það var vitað að þetta yrði stál í stál. Við jöfnum okkur bara núna og mætum í næsta leik. Við erum ekkert hættir. Þetta eru tvö frábær lið og við þurfum að vinna næsta leik. Það segir sig sjálft. Það munaði ótrúlega litlu í kvöld. Þetta var bara millimeter til eða frá,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.