Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var eðlilega mjög sáttur eftir sigur á Tindastóli í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Með sigrinum jafnaði Álftanes metin í einvíginu í 1:1.
„Ég er bara ótrúlega ánægður með hvernig liðið var og hvernig strákarnir voru undir lok leiksins. Þeir héldu haus á erfiðum augnablikum og héldu sér inni í mómentinu. Það er það sem stendur uppúr akkúrat núna.“
Leikurinn var hnífjafn allan tímann og réðist ekki fyrr en á lokaandartökum leiksins. Baráttan í báðum liðum var gríðarleg og virtist það vera hún sem skilaði sigrinum fyrir Álftanes.
„Það var rosa vilji í báðum liðum og þetta var alvöru úrslitakeppnisleikur. Þá eru lítil augnablik hér og þar sem skipta svo miklum sköpum, að skutla sér á boltann, ná að slá hann til hliðar og að vera kannski ekki alveg í nákvæmu leikplani alltaf. Menn þurfa bara stundum að taka ákvarðanir með hjartanu.
Það voru samt sem áður líka mörg augnablik þar sem körfuboltaleg gæði skinu í gegn eins og stór skot sem féllu báðu megin. Þetta var blanda af báðu og ég held að við höfum fengið það besta úr báðum heimum.“
Þegar allt var í járnum í fjórða leikhluta virtist Dimitrios Agravanis, leikmaður Tindastóls, brjóta af sér á fjórum villum. Villan var þó ekki dæmd og í kjölfarið setti hann niður þrjár þriggja stiga körfur í röð.
„Frá mínu sjónarhorni leit þetta út fyrir að vera villa en dómararnir ná ekki öllu réttu svo við verðum bara að treysta þeim fyrir þessu. Kannski var þetta rétt hjá þeim, ég er mjög hlutdrægur.“
Í miðju viðtali sem fram fór á ganginum fyrir framan búningsklefa liðanna mættu stuðningsmenn Álftaness og byrjuðu að syngja af krafti, rétt við búningsklefa Tindastóls. Þessir umræddu stuðningsmenn voru algjörlega magnaðir allan leikinn og studdu duglega við liðið, ásamt öðrum Álftnesingum sem mættu.
„Þetta er geggjað. Ég er alinn upp hérna í Sjávargötunni, fór í Álftanesskóla, kenndi í Álftanesskóla og var að þjálfa í yngri flokkunum. Að horfa á þetta verða til er geggjað, við höldum bara áfram.“
Á lokamínútunum þegar allt var undir fóru mörg vítaskot forgörðum hjá báðum liðum, en sérstaklega Álftnesingum.
„Maður andar bara. Þetta er bara svona. Ég er alltaf bara ánægður þegar menn koma sér á línuna, það er það eina sem ég bið um. Allt annað er í höndum körfuboltaguðanna og þeir hafa sinn vilja, vegir þeirra eru órannsakanlegir.“
Fyrsta leik liðanna á Sauðárkróki lauk ekki vel fyrir Álftnesinga en Tindastóll vann þar sannfærandi sigur. Næsti leikur liðanna er einmitt þar á þriðjudaginn.
„Við horfðum á síðasta leik og vorum ósáttir með sjálfa okkur. Við erum að fara á erfiðan útivöll en erum tilbúnir í það. Við þurfum að mæta með meiri ákefð og vera tilbúnir að mæta orkunni í Stólunum. Þá verður þetta bara eins og í kvöld, 50/50 leikur.“