Borfyrirtækið Jarðboranir fékk á dögunum samstarfsverðlaun (e. Strategic Partnership Award) frá Energy Development Corporation (EDC), stærsta jarðvarmafyrirtæki Filippseyja.
Samkvæmt upplýsingum frá Jarðborunum eru verðlaunin veitt fyrir gott samstarf og árangursríka framkvæmd borverkefna þar sem teymi Jarðborana sýndi mikinn sveigjanleika, áreiðanleika og fagmennsku.
Egill Arnar Sigurþórsson rekstrarstjóri Jarðborana á Filippseyjum segir í samtali við mbl.is að viðurkenningin byggi á því hversu hratt fyrirtækinu tókst að koma tveimur borum í notkun. „Að auki höfðum við á árinu 2024 borað eða hafið borun á samtals fimm holum sem undirstrikar getu okkar til að standast ströng skilyrði og skila vönduðum vinnubrögðum við erfiðar aðstæður,“ segir Egill.
Egill Arnar Sigurþórsson rekstrarstjóri Jarðborana á Filippseyjum.
Verðlaunin voru afhent á ráðstefnunni EDC Vendors Recognition Day í Ascott, Bonifacio Global City í Manila höfuðborg Filippseyja.
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir Jarðboranir og fyrst og fremst fyrir fólkið okkar - þá miklu vinnu, fagmennsku og elju sem teymið okkar leggur í hvert verkefni. Við erum stolt af því að vera traustur samstarfsaðili í jarðhitaþróun og hlökkum til að halda áfram að leggja okkar af mörkum til sjálfbærrar orkunýtingar á alþjóðavísu,“ segir Egill að lokum.