Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í janúar var vakin athygli á kostnaðarsömu aðgerðaleysi í virkjunarmálum fyrir íslenskt samfélag. Fram kom að helstu opinberir framkvæmdaaðilar gerðu ráð fyrir framkvæmdum fyrir 264 milljarða króna á þessu ári.
Landsvirkjun er þar langumfangsmest með um 92 milljarða króna framkvæmdir boðaðar á árinu. Sem er um 35% af öllum fyrirhuguðum framkvæmdum opinberra aðila á þinginu.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI benti á að raunútboð Landsvirkjunar á síðasta ári námu 38 milljörðum króna. Í upphafi þessa árs gerði Landsvirkjun hins vegar ráð fyrir framkvæmdum fyrir 100 milljarða en vegna tafa á leyfisveitingum raungerðist ekki nema þriðjungur fyrirhugaðra útboða.
Sigurður fullyrðir að flókin málsmeðferð leyfismála vatnsaflsvirkjana og lagaramminn valdi kostnaðarsömum orkuskorti á Íslandi.
„Það er bara staðan. Landsvirkjun hefur verið með Hvammsvirkjun í undirbúningi í 25 ár. Landsvirkjun taldi sig hafa farið í gegnum allt ferlið og sótti um virkjunarleyfi um mitt ár 2021. Staðan tæpum fjórum árum seinna er sú að það ríkir fullkomin óvissa í málinu,“ segir Sigurður í samtali við ViðskiptaMoggann.
„Hvað varðar málsmeðferðina vakti það athygli á sínum tíma hvað Orkustofnun var lengi að afgreiða málið. Fram að því var talað um að það tæki 30 daga að fá virkjunarleyfi, en málsmeðferðin tók tvö ár hjá stofnuninni. Hitt vandamálið er lögin. Héraðsdómur felldi úr gildi virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun þar sem leyfið samrýmdist ekki vatnalögum,“ segir Sigurður.