Samkvæmt tilkynningu og uppgjöri Iceland Seafood International fyrir árið 2024 nam hagnaður félagsins fyrir skatta af reglulegri starfsemi um 1,1 milljarði króna. Niðurstaðan er yfir spá félagsins.
Rekstrartekjur samstæðunnar voru um 66 milljarðar króna sem er 3% aukning frá 2023. Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi 2024 námu 19,3 milljörðum króna sem er aukning um 16% frá sama ársfjórðungi 2023.
Hagnaður ársins eftir skatta nemur 414 milljónum króna, samanborið við 3 milljarða króna tap 2023. EBITDA fyrir árið 2024 er 2,6 milljarðar króna en var 1,6 milljarður króna á árinu 2023.
Í tilkynningu kemur fram að hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi á árinu 2025 muni samkvæmt afkomuspá nema um 1,1 – 1,4 milljörðum króna.
Fram kemur að verð á laxi hafi verið hærra en reiknað var með í byrjun árs og hafi haldist hátt fram á annan ársfjórðung. Verð á laxi hafi síðan jafnast út síðari hluta ársins. Aukin eftirspurn og hækkandi verð á þorski og ýsu inn á markaði í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi sett sitt mark og batamerki á mörkuðum í Evrópu.
Afkomuspá fyrir árið var á bilinu 700 – 1000 milljónir króna og er niðurstaða ársins því yfir spá. Gert er ráð fyrir áframhaldandi háu þorskverði á árinu og að verð á laxi verði í hærri kantinum fyrri hluta ársins en lækki á síðari hluta.
Í tilefni uppgjörsins er haft eftir Ægi Páli Friðbertssyni, forstjóra:
„Árið 2024 var ár viðsnúnings í rekstri Iceland Seafood og skiluðu öll rekstrarfélög samstæðunnar hagnaði á árinu eftir mjög erfið ár þar á undan. Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá þessa rekstrarþróun á fyrsta heila starfsári mínu hjá félaginu jafnframt því að skynja þau tækifæri sem felast í félaginu vegna öflugs starfsfólks, tryggra birgja og öflugra viðskiptavina. Fram eftir árinu 2024 voru sveiflur í verðum aðfanga og óvissa var á markaði. Hátt verð var á laxi fram undir mitt ár en það náði síðan jafnvægi sem gerði það að verkum að hagnaður var af laxa tengdri starfsemi. Á sama hátt urðu breytingar á mörkuðum fyrir hvít fisk á síðasta fjórðungi ársins, salan jókst og var afkoma fjórðungsins ein sú besta sem verið hefur hjá félaginu á þeim ársfjórðungi. Aukin eftirspurn sem við sáum á ársfjórðungnum eftir hvít fisks afurðum skýrist meðal annars af minni úthlutun þorskkvóta í Barentshafi fyrir árið 2025 og eru allar líkur á því að sú eftirspurn haldist áfram út árið 2025 og til lengri tíma.
Þessi viðsnúningur í rekstri Iceland Seafood á árinu 2024 er mjög jákvæður í ljósi þess að félagið var að selja erfiðar birgðir sem skiluðu neikvæðri afkomu auk þess sem að vaxtakostnaður hækkaði verulega á milli áranna 2023 og 2024 eða sem nam 0.5 milljörðum ISK (€3.6m). Þessi hækkun vaxtakostnaðar átti sér stað samhliða hækkun vaxta í helstu viðskiptalöndum okkar en þegar líða tók á árið 2024 sáum við vexti fara að lækka sem er jákvætt fyrir félagið.”
Í fjárfestatilkynningu félagsins kemur fram að verð fyrir þorsk muni að líkindum haldast hátt á árinu vegna niðurskurðar í veiðiheimildum og banni Bandaríkjanna á fiskafurðir frá Rússlandi. Líklegt sé að verð á laxi fylgi svipaðri þróun og á síðasta ári, þó núverandi verð hafi ekki haldið í við áætlanir. Gert er ráð fyrir allar deildir félagsins muni skila niðurstöðum í línu við áætlanir en breyturnar margar.