Hagnaður Nova eftir skatta árið 2024 var 807 milljónir króna og jókst hann um 10,7% frá fyrra ári.
Heildartekjur voru 13.314 milljónir króna og vaxa um 2,5% á milli ára. Þjónustutekjur námu samtals 10.358 milljónum króna og vaxa um 6,4% á milli ára.
EBITDA nam 4.128 milljónir króna og vex um 3,8% á mili ára. EBITDA hlutfallið var 31,0% á árinu samanborið við 30,6% á fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1.862 milljónir króna samanborið við 1.826 milljónir króna á fyrra ári.
Hrein fjármagnsgjöld ársins nema 839 milljónum króna og lækka um 11,0% frá fyrra ári.
Í tilkynningu félagsins í kjölfar uppgjörsins kemur fram að stjórn Nova hafi ákveðið að stofna sérstakt innviðafélag um lykilinnviði, dreifikerfi og stofnnet, sem verður að fullu í eigu Nova Klúbbsins, móðurfélags Nova. Fram kemur að með nýju félagi, Nova innviðir, verður til skýrari aðgreining ólíkra þátta í starfsemi félagsins, þjónustu- og innviðarekstrar, sem styrkir stöðu Nova sem leiðandi aðila á íslenskum fjarskiptamarkaði.
Í tilkynningu segir að þannig skapist mikilvægt tækifæri til hagræðingar með enn meiri samnýtingu, m.a á vettvangi Sendafélagsins. Einnig skapast traustari grundvöllur til þess tryggja loforð okkar um að vera fyrst inn í framtíðina með snjallari lausnir.
Haft er eftir Margréti Tryggvadóttur forstjóra Nova í fréttatilkynningu að það sé alltaf ánægjulegt að skila góðu uppgjöri en það séu þó nokkrir þættir sem gera það sérstaklega ánægjulegt núna.
„Við erum ekki bara að sjá góðan hagnað fyrir hluthafa og alla meginþætti rekstursins í takti við eða umfram væntingar. Við erum að sjá verulega fjölgun viðskiptavina á fastneti og á fyrirtækjamarkaði, bæði í hefðbundinni þjónustu en líka í sérlausnum. Við erum efst í Íslensku ánægjuvoginni sextánda árið í röð, sem er líklega mikilvægasti mælikvarðinn á það hvort við séum á réttri leið gagnvart viðskiptavinum okkar og það sem er verulega ánægjulegt er að þar erum við einnig að sjá betri niðurstöður frá síðasta ári, sem er sannarlega ekki sjálfgefið. Allt þetta skiptir máli því það er mikilvægt að lykilþættir séu í lagi þegar við horfum til nýrra verkefna og enn frekari vaxtar. Það eru spennandi hlutir framundan hjá Nova,“ er haft eftir Margréti.