Í útrás eftir sölu til Ölgerðarinnar

Hrönn gerði sér litlar vonir um að Andri myndi stökkva …
Hrönn gerði sér litlar vonir um að Andri myndi stökkva á hugmynd um framleiðslu á kollagendrykk. Ljósmynd/Ari Magg

Eftir 11 ára rússíbanareið við uppbyggingu frumkvöðlafyrirtækisins Ankra skrifaði Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri ásamt öðrum hluthöfum á dögunum undir samning við Ölgerðina um kaup á öllu hlutafé í Ankra ehf. fyrir 600 milljónir.

Ankra hefur séð Ölgerðinni fyrir kollageni síðan 2019.

Hrönn kaupir á sama tíma vörumerkið Feel Iceland út úr rekstri Ankra og heldur rekstri þess áfram í sérstöku félagi en Ölgerðin hefur ótímabundinn rétt til notkunar á vörumerkinu Feel Iceland við framleiðslu og markaðssetningu á drykknum Collab þar sem merkið er prentað á dósirnar. „Ölgerðin kaupir allt félagið en inni í því eru hugverkaréttindi og aðgangur að hágæða kollageni sem við höfum látið þróa,“ segir Hrönn í samtali við Morgunblaðið.

Fáir vissu um kollagen

Feel Iceland kollagen-fæðubótarefnin hafa verið á markaði síðan 2014. „Þegar við kynntum þau til sögunnar vissu fáir hvað kollagen var. Maður þurfti að byrja á að fræða fólk um vöruna.“

Hugmyndin að Ankra kviknaði upphaflega þegar Hrönn leigði borð í frumkvöðlasetrinu í Sjávarklasanum árið 2013. Hún vildi leggja sitt af mörkum til að auka virði íslenska fisksins á sjálfbæran hátt.

Eins og Hrönn útskýrir er kollagen eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans. „Líkami okkar framleiðir kollagen en á aldrinum 20-25 ára byrjar framleiðsla þess að minnka. Kollagen Feel Iceland, sem er framleitt úr íslensku fiskroði, er af týpu 1 sem er 90% af öllu kollageni í líkamanum. Það finnst í húð, beinum, liðböndum og æðum, ásamt fleiri stöðum í líkamanum.“

Hrönn segir að samkvæmt samanburðarrannsókn á afreksíþróttamönnum sem tóku um 30 grömm af kollageni á dag eftir að hafa slitið hásin eða liðbönd hafi þeir skilað sér að meðaltali sex mánuðum fyrr inn á völlinn en þeir sem ekki tóku inn kollagen.

Roði áður hent

Áður en Hrönn og teymi hennar hófu þróun vörunnar var fiskroði meira og minna hent. „Fiskvinnslurnar borguðu fyrir förgun þess. Nú er verðmæti roðsins orðið svo mikið að maður þarf að borga vel fyrir það.“

Aðspurð segir Hrönn að kollagenið sé framleitt í Kanada. „Vonandi verður í fyllingu tímans hægt að framleiða það á Íslandi í sömu gæðum.“

Um þróun fyrirtækisins í áranna rás segir Hrönn að Ankra hafi fyrst byrjað að vaxa fyrir alvöru þegar reynslumikil stjórn kom að félaginu ásamt því sem skilningsríkir og hvetjandi fjárfestar komu að fyrirtækinu. Áður hafði Ankra fengið ýmsa frumkvöðlastyrki.

Tímamót urðu árið 2019 þegar Hrönn fór upp á von og óvon á fund Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og kynnti hugmynd að kollagendrykk. „Ég hafði engar sérstakar vonir um að hann myndi stökkva á hugmyndina, en hann gerði það og í hönd fór tveggja ára þróunarferli sem skilaði sér í virknidrykknum Collab. Hann er nú einn vinsælasti drykkur landsins og byrjað er að selja hann bæði í Danmörku og Þýskalandi,“ segir Hrönn en hún mun verða Ölgerðinni til ráðgjafar og aðstoða við útflutning á Collab næstu árin.

Feel Iceland vörur.
Feel Iceland vörur.

Hrönn hefur ekki setið auðum höndum eftir söluna til Ölgerðarinnar. Þróun fæðubótarefna Feel Iceland heldur áfram og útrás til Englands er í undirbúningi og viðræður við eina stórverslun (e. department store) eru hafnar. „Við ætlum að markaðssetja þetta sem hágæða lúxusvöru enda erum við með einstakt hráefni í höndunum.“

Nú þegar hafa 2.500 tonn af fiskroði verið nýtt í framleiðslu á kollageni Feel Iceland. Kollagenið er hið mest selda á Norðurlöndum.

„Feel Iceland-kollagenið er til dæmis notað út í kaffi á kaffihúsum eða í skyrrétti á Ísey Skyrbar.“

Vinna úr fiskibeinum

Nýjasta vara Feel Iceland er Bone Health Therapy. Hrönn segir hana vera ólíka öðrum fæðubótarefnum fyrir bein þar sem hún inniheldur náttúrulegt efni sem kallast MCHC (microcrystalline hydroxyapatite complex) og er unnið úr íslenskum fiskibeinum, sem enn í dag er fargað. „Í fiskibeinunum er kollagen, kalk og önnur steinefni í sínu náttúrulega formi með sömu samsetningu og er í beinum mannfólks.“

Bone Health Therapy er unnin úr fiskibeinum.
Bone Health Therapy er unnin úr fiskibeinum.

Hrönn segir að varan, sem seld er í hylkjum, komi sér t.d. vel fyrir konur á breytingaskeiðinu. „Þær eru í áhættuhóp fyrir beinþynningu.“

Feel Iceland selur einnig kollagen fyrir liði, húð, hár og neglur. „Svo erum við að koma með fleiri vörur á árinu. Til dæmis er kollagen með C-vítamíni og bragðefni væntanlegt. Þú munt geta blandað því beint út í vatn og skutlað því í brúsann þinn á leið í ræktina.“

Fjórir vinna hjá Feel Iceland

Spurð um fjármögnun segir Hrönn að sem stendur leiti fyrirtækið ekki að fé. „En það kostar töluvert mikið að ná athygli erlendis. Við munum nota almannatengsl eins mikið og við getum til að ná fótfestu í Englandi. Það hjálpar til að saga okkar er áhugaverð og menn lyfta brúnum þegar þeir átta sig á hvað kollagensalan er mikil. Einnig er það kostur að framleiða úr fiski af sjálfbærum, hreinum íslenskum fiskimiðum.“

Aðspurð segir Hrönn að utanaðkomandi fjárfestar í Ankra hafi selt sig út úr fyrirtækinu þegar Ölgerðin keypti það, en þeir áttu samtals um 20% hlut.

Spurð um rekstur síðasta árs segir Hrönn að tekjurnar hafi numið 540 milljónum króna. Hagnaður hafi verið um 60 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK