Samkvæmt uppgjöri og tilkynningu frá Brim námu rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi 2024 um 105,2 milljónum evra, samanborið við 101,7 milljónum evra á sama tímabili fyrir ári.
EBITDA nam 18,3 milljónum evra á ársfjórðungnum, samanborið við 18,5 milljónir evra á sama tímabili 2023. Hagnaður félagsins nam 16,0 milljónum evra á ársfjórðungnum, samanborið við 8,8 milljónir evra á sama tíma 2023.
Fyrir árið í heild voru rekstrartekjur 389,4 milljónir evra, samanborið við 437,2 milljónir evra árið 2023. EBITDA ársins 2024 var 65,3 milljónir evra en var 97,2 milljónir evra árið 2023. Hagnaður ársins 2024 var 40,5 milljónir evra en var 62,9 milljónir evra árið áður.
Í tilkynningu er gert ráð fyrir meðalgengi ársins 2023 (1 evra = 149,31 ísk) þá hafi tekjur félagsins numið 58,1 milljarði króna, EBITDA 9,8 milljörðum og hagnaður um 6 milljörðum.
Handbært fé félagsins í árslok nam um 52,1 milljónum evra.
Gert er ráð fyrir arðgreiðslu á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 um 1,5 kr. á hlut, eða 2.888 milljónir króna (um 20,1 millj. evra á lokagengi ársins 2024).
Í tilkynningu kemur fram að engin loðnuvertíð og dræm makrílveiði hafi sett stóran svip á rekstur uppsjávarsviðs árið 2024. Heildarafli uppsjávarskipa hafi verið 96 þúsund tonn á móti 152 þúsund tonnum árið 2023, þar af nam samdráttur í loðnu um 48 þúsund tonn og makríl 9.500 tonn, en veiðar gengu vel á síld og kolmunna. Vinnsla gekk vel og framleiðslugæði voru góð. Verð á frystum makríl og síld hækkaði og sala gekk vel. Verð á bæði mjöli og lýsi voru mjög góð þrátt fyrir að verð á lýsi hafi lækkað á seinni hluta ársins.
Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 14,5 milljónir evra, en voru 9,7 milljónir evra árið áður. Munar þar mestu um að áhrif danska félagsins Polar Seafood Denmark A/S eru tekin inn allt árið en voru aðeins inni seinni hluta ársins 2023. Einnig seldi hlutdeildarfélagið Þórsberg ehf. aflaheimildir sem höfðu áhrif til hækkunar á tekjum af hlutdeildarfélögum. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 46,1 milljónir evra, samanborið 75,0 milljónir evra árið áður. Gjaldfærður tekjuskattur nam 5,6 milljónum evra, en var 12,1 milljónir evra árið áður.
Í tilkynningu í tilefni uppgjörsins er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra:
„Afkoma Brims var undir væntingum á árinu og er aðal ástæðan að íslensk stjórnvöld leyfðu engar loðnuveiðar. Úthlutun í djúpkarfa var engin í upphafi ársins og einnig hömluðu stjórnvöld Brimi að veiða stóran hluta síns þorskkvóta í Barentshafi á árinu.“
Guðmundur tilgreinir jafnframt í tilkynningu: „Sú staðreynd að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er veik í dag þegar horft er til ávöxtunar á bókfært eigið fé, sem viðskiptalíf um allan heim horfir til, virðist ekki breyta því almenna viðhorfi hér á landi sem birtist í nær allri umræðu um sjávarútveg að greinin sé takmarkalítil og fyrirhafnarlaus uppspretta skatta sem nýta megi í allt annað en framfarir í greininni.
Stjórnmálaflokkar ganga á lagið eins og við sjáum þegar nýjir flokkar taki við völdum í ríkisstjórn að þá minnkar ekkert óvissan í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Í dag boðar ný ríkisstjórn aukin veiðigjöld og aðkomu samkeppnisyfirvalda að greininni en hún er sú eina í landinu þar sem lög hamla vexti fyrirtækja löngu áður en þau ná stöðu sem ógnar alþjóðlegum og innlendum samkeppnisviðmiðum.
Er svo komið að rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur í greininni eru þannig að bæði stofnanafjárfestar og almennir fjárfestar sýna sjávarútvegsfyrirtækjum sífellt minni áhugi enda ávöxtun meiri í rekstri fasteigna- og verslunarfélaga eða fjármálafyrirtækja."