This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, flutti í dag ávarp á kynningu á vegum Icelandic Seafood í Tókýó þar sem hún lagði ríka áherslu á mikilvægi hafsins í menningu og sjálfsmynd Íslendinga, auk þess sem hún kallaði eftir sameiginlegri ábyrgð á að vernda heilbrigði hafsins fyrir komandi kynslóðir.
Halla sagði sjávarútveginn samofinn sjálfsmynd þjóðarinnar og ítrekaði virðingu Íslendinga fyrir hafinu og þeim auðlindum sem þar er að finna.
Forsetinn er staddur í Japan til að sækja Heimssýninguna í Osaka, Expo 2025, sem hófst 13. apríl og stendur yfir til 13. október 2025.
Í ræðu sinni lagði forsetinn einnig áherslu á nafn Icelandic Seafood og benti á að þar sé vísað með skýrum hætti til Íslands. Með því undirstriki fyrirtækið gæði og heiðarleika, eiginleika sem séu jafnframt tengdir íslenskum sjávarútvegi.
Halla vék einnig að mikilvægi Japans sem lykilmarkaðar fyrir íslenskan sjávarútveg og minntist á langvarandi og traust viðskiptasamband landanna á þessu sviði.
Að lokum dró forsetinn fram þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í aukinni þátttöku kvenna í sjávarútvegi, bæði á Íslandi og víðar. Hún sagði fjölbreytta forystu skipta sköpum fyrir sjálfbæra framtíð greinarinnar.