Arðsemi eigin fjár hjá Landsvirkjun var á tímabilinu 2011 til 2024 umtalsvert undir því sem fjárfestar myndu almennt gera kröfu um. Meðaltal nafnávöxtunar var einungis 4,7% og raunávöxtun að meðaltali 0,6%.
Þetta telst mjög lítil arðsemi, sérstaklega í ljósi þess að fyrirtækið starfar í orkuiðnaði með stöðuga tekjustrauma og á eignir með langan líftíma sem hafa í raun verðmæti langt umfram bókfært virði.
Greining frá Alexander Jensen Hjálmarssyni stofnanda Akkurs varpar skýru ljósi á stöðuna: „Arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar hefur vissulega batnað undanfarin ár en er engu að síður undir 5% sl. 14 ár og um 0,6% leiðrétt fyrir verðbólgu. Í fyrra var arðsemin 6,8%, sem var undir stýrivöxtum og þá er ekki tekið tillit til þess að eigið fé félagsins er mjög vanmetið.“
Sé eigið fé leiðrétt með hliðsjón af vátryggingarverðmæti og virði uppsetts afls, má áætla að raunvirði eigna sé um 700 milljörðum hærra en bókfært virði. Þá færist nafnarðsemi eigin fjár niður í 1,5 til 2,5% og raunarðsemi verður neikvæð, á bilinu -1,5% til -2,5%.
Þrátt fyrir mikinn hagnað í krónum talið hefur Landsvirkjun á síðustu 14 árum skilað neikvæðri raunávöxtun
eigin fjár. Sú arðsemi væri af flestum talin óásættanleg, sérstaklega þegar
hún er skoðuð í samhengi við raunverulegt virði eigna og umfang rekstrarins.
Landsvirkjun er með um 340 starfsmenn og rekur 14 vatnsaflsvirkjanir, auk þriggja jarðvarmavirkjana, og tveggja vindmylla í rannsóknarskyni. Einnig stendur til að reisa 28 vindmyllur við Vaðölduver og verður helmingur þeirra gangsettur haustið 2026. Fyrirtækið framleiðir um 2.150 MW af rafmagni, sem nemur u.þ.b. 70% af heildarraforkuframleiðslu landsins.
Þrátt fyrir ómetanlegar náttúruauðlindir, hundruð milljarða í tekjur og hundruð starfsmanna hefur Landsvirkjun ekki skilað jákvæðri raunávöxtun.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.