Aldrei hafa fleiri sótt Sjávarútvegsráðstefnuna, sem nú er haldin í sjötta sinn. Alls eru þátttakendur rúmlega 800, en fyrirlesarar eru tæplega 70 í 14 málstofum. Ráðstefnan er að þessu sinni haldin í Hörpu. Í gær voru framúrstefnuverðlaun ráðstefnunnar afhent og var hugmynd um ofurkælingu á botnfiski verðlaunuð.
Sjálfstætt félag stendur að Sjávarútvegsráðstefnunni og standa hátt í 100 aðilar að því, fyrirtæki og einstaklingar. Hugmyndin er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn.
Átta manna stjórn er jafnframt ráðstefnuráð og skipuleggur og sér um framkvæmd ráðstefnunnar.
„Svifaldan“, verðlaunagripurinn fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016, var nú veitt í sjötta sinn, en markmiðið er að efla umræður og hvetja til nýrrar hugsunar með framsæknum og frumlegum hugmyndum, segir í fréttatilkynningu. Svifaldan er gefin af TM en jafnframt var veitt verðlaunafé og viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu hugmyndunum.
Í tilkynningu segir eftirfarandi um veitingu verðlauna: Gunnar Þórðarson, Matís og Albert Högnason, 3X Technology hlutu fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016. Hugmyndin er ofurkæling á botnfiski niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar og geymsluþol afurðar lengist í samanburði við hefðbundnar leiðir við kælingu á fiski. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi.
Þó svo að ofurkæling sé í sjálfu sér ekki ný af nálinni er tæknin og búnaðurinn sem þróaður hefur verið í kringum þessa „framúrstefnuhugmynd“ ný nálgun sem hefur þegar orðið grundvöllur að nýrri hugsun við veiðar og vinnslu innan lands sem utan.
Í 2.-3. sæti var framúrstefnuhugmyndin Vistvænt íslenskt skip. Að þessari hugmynd koma Sigríður Ragna Sverrisdóttir, Hafið – Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, í samstarfi við Skipasýn, RENSEA, Klappir ehf. og Viðskiptahúsið. Hugmyndin snýr að því að hanna og smíða 48 metra vistvænt línuskip þar sem öll umhverfisáhrif af starfsemi skipsins eru lágmörkuð.
Í öðru til þriðja sæti var einnig framúrstefnuhugmyndin Strandveiðiþjarkur með fjarstýringu, en að henni stendur Árni Thoroddsen. Hugmyndin felst í því að strandveiðibátþjarka er fjarstýrt frá landi eða móðurskipi á sjó til að stunda krókaveiðar á grunnmiðum.