Á sama tíma og samninganefndir sjómanna og útgerða funda hjá Ríkissáttasemjara í dag hafa sjómenn efnt til samstöðufundar við sömu húskynni. Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir kröfur sjómanna sanngjarnar og ekki standi til að slá nokkuð af þeim.
Fundað verður í kjaradeilu sjómanna og útgerða í dag kl. 13. Samninganefndir sjómanna munu hittast klukkustund fyrir upphaf fundar til að fara yfir stöðuna sín megin frá og stilla saman strengi fyrir fund sinn með fulltrúum útgerða.
Sjómenn hafa blásið til samstöðufundar og látið boð út ganga á Facebook, þar sem allir eru hvattir til að mæta og sýna sjómönnum landsins samstöðu í kjarabaráttu sinni. Segir á síðunni að sjómenn hafi „fengið upp í kok eftir að það lak út að til standi að setja lög á verkfallið“. Þá hyggjast menn mæta í skítugum sjógöllum og mótmæla því eindregið að hafa ekki sömu réttindi og annað vinnandi fólk. Markmiðið sé að senda skýr skilaboð um að sjómenn mæti ekki um borð í skip sín, komi til lagasetningar á verkfallið.
Um 200 manns hafa nú þegar staðfest komu sína á samstöðufundinn og hátt í 500 til viðbótar segjast hugsanlega munu mæta.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem á sæti í samninganefndinni fyrir hönd Sjómannasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is að menn vonuðu það besta en byggju sig undir það versta.
„Það skiptir máli að reyna að finna lausn á þessari deilu en maður verður líka að vera raunsær, miðað við það hvernig útgerðarmenn hafa hingað til tekið í okkar kröfur,“ segir Vilhjálmur. Hann segir samninganefndir sjómanna hafa sameinast um fimm höfuðkröfur sem nái til allra útgerðaflokka en séu útgerðum landsins vel aðgengilegar.
„Þessar kröfur eru okkur allar mjög mikilvægar og við getum engan afslátt gefið af þeim. Það á alveg að vera hægt að leysa þessa deilu en það mun líklega skýrast á eftir hvort vilji standi til þess að höggva á þennan hnút,“ segir hann.
Vilhjálmur bendir á að þegar horft sé til afkomu útgerðanna undanfarin ár séu kröfur sjómanna mjög sanngjarnar, þótt eitthvað hafi dregið úr hagnaði undanfarna mánuði. „Það er allavega ekki verið að ógna afkomu útgerðanna á neinn hátt, svo mikið er víst.“
Aðspurður hvort menn óttist lagasetningu á verkfallið, segir Vilhjálmur að svo sé varla.
„Það væri með hreinustu ólíkindum ef Alþingi Íslendinga væri að velta slíku fyrir sér. Sérstaklega vil ég nú rifja það upp að hér voru heilbrigðisstarfsmenn í verkfalli frá 27. október 2015 fram yfir áramótin. Í þeirri deilu voru mannslíf í hættu en það hvarflaði ekki að stjórnvöldum þá að setja lög á þá deilu. Það yrði því saga til næsta bæjar, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, ef stjórnvöld settu lög á sjómenn enn og aftur. Ég myndi aldrei trúa því að til lagasetningar kæmi með hliðsjón af því hver þróun mála varð í deilu heilbrigðisstarfsmanna. Það bara getur ekki verið,“ sagði Vilhjálmur Birgisson að endingu.