Skaginn3X og Grieg Seafood í Alta í Noregi undirrituðu á dögunum samning um innleiðingu Grieg Seafood á SUB CHILLING™ kerfi sem Skaginn3X hefur þróað á undanförnum árum.
Grieg Seafood er fyrsta laxeldisfyrirtækið í Noregi sem tekur kerfið í notkun en sams konar kerfi hefur verið notað með framúrskarandi árangri hjá Arnarlaxi á Bíldudal síðan á árinu 2015, að því er fram kemur í tilkynningu um málið frá Skaginn3X.
SUB-CHILLING™ er ný tækni sem gerir framleiðendum kleift að kæla niður að frostmarki afurðar á sem skemmstum tíma, án þess að frysta afurðina. Tæknin snöggkælir fiskinn strax eftir slátrun svo hitastig fisksins er um -1,5°C við pökkun.
Helstu kostir kælingar með SUB-CHILLING™ er að geymsluþol vörunnar eykst um 5-7 daga. Kæliorkan flyst í hold fiskins sem leiðir til þess að hægt er að geyma og flytja fiskinn án íss. Þessir kostir bjóða upp á ódýrari flutningsleiðir, tækifæri til að sækja á nýja og fjarlæga markaði, aukið afhendingaröryggi ásamt minni umhverfisáhrifum af völdum framleiðslu og flutninga.
„Við hjá Grieg Seafood viljum vera brautryðjendur nýrrar tækni og þessi fjárfesting okkar í SUB-CHILLING™ kerfi fellur vel að þeirri stefnu okkar að bjóða viðskiptavinum okkar bestu mögulegu gæði um leið og við minnkum umhverfisáhrifin sem tengjast flutningum,“ segir Stine Torheim, verksmiðjustjóri hjá Grieg Seafood.
Auk kosta kerfisins varðandi gæði vörunnar telur Stine Torheim hjá Grieg að kerfið geti aukið stöðugleika í framleiðslunni og opnað ný markaðssvæði.
„Við væntum þess að kerfið reynist okkur vel og sporni við árstíðabundnum hitasveiflum og tryggi meiri stöðugleika í kælingu allt árið. Með þessari nýju kælitækni og mun lengri líftíma á ferskri vöru, getum við mætt þörfum markaða sem áður voru okkur lokaðir,“ segir Stine Torheim.
Búist er við því að kerfið verði komið í fulla notkun í apríl á þessu ári, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Við erum spennt fyrir að koma fyrsta SUB-CHILLING™ laxinum okkar á markað eftir páska og stefnum á að minnka verulega ísnotkun strax í byrjun og vonumst til þess að geta selt vöruna íslausa í framtíðinni, þegar markaðurinn fyrir SUB-CHILLING™ lax verður orðinn þroskaðri,“ segir Stine.