Hámýs seint taldar til nytjastofna

Geirnyt (Chimaera monstrosa) er aðeins eitt af nokkrum nöfnum sem …
Geirnyt (Chimaera monstrosa) er aðeins eitt af nokkrum nöfnum sem til eru fyrir þessa fisktegund. Hún hefur verið nefnd hámús, hafmús, rottufiskur og jafnvel særotta. Fiskurinn hefur ekki þótt eftirsóttur í matargerð. Ljósmynd/Havforskningsinstituttet

Fyrir röskum 20 árum voru furðufiskadagar nokkrum sinnum á matseðlinum á veitingastaðnum Jónatan Livingstone Máv við Tryggvagötu. Þar elduðu Úlfar Finnbjörnsson og samstarfsfólk rétti úr sjaldséðum fiskum og óvenjulegu sjávarfangi. Fram kom í Morgunblaðinu veturinn 1997 að þá voru meðal annars á matseðlinum bökuð geirnyt með engifer- og gulrótarsósu og grillaður broddbakur með grænertusósu.

Samstarfsmaður á Morgunblaðinu rifjaði upp kvöldverð fyrir mörgum árum hjá Úlfari Eysteinssyni á Þremur frökkum. Þar var meðal annars boðið upp á geirnyt og sagði samstarfsmaðurinn að rétturinn hefði verið sérkennilegur og minnt á graut. Hann bað ekki um ábót!

Heldur er geirnyt sjaldgæf á fiskmörkuðunum. Þar hefur fiskurinn ekki verið seldur í ár, en tvö kíló 2018 fyrir fimm krónur kílóið. 300 kíló voru seld 2016, 15 og 16 kíló tvö ár þar á undan og 872 kíló voru seld af geirnyt á mörkuðunum 2013.

Sex tegundir við Ísland

Sex tegundir svokallaðra hámúsa finnast á hafsvæðinu við Ísland. Ekki teljast þær til nytjafiska og ekki er líklegt að svo verði. Tilraunir hafa þó verið gerðar til að nýta geirnyt og þá gjarnan þegar sneiðst hefur um afla úr öðrum tegundum. Hámýs mynda undirflokk brjóskfiska og eru náskyldar skötum og háfum.

Í skýrslu sem fjórir sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun hafa tekið saman um hámýs kemur fram að yfirleitt komi eitthvað af þessum tegundum í trollið í stofnmælingum. Skýrslan er samantekt á gögnum um útbreiðslu og helstu líffræðilegum þáttum hámúsa byggð á áratugalangri sýnasöfnun í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.

Sú lengsta 110 sentímertar

Aðalhöfundur er Klara Björg Jakobsdóttir fiskifræðingur og segir hún að rannsóknir á þessum tegundum hafi aukist á síðustu árum, en margt sé enn óljóst um þær. Aðspurð segir hún ekki líklegt að nýta megi þessar tegundir. Stofnarnir séu viðkvæmir og ekki stórir. Viðkoma tegundanna sé lítil og t.d. gjóti/hrygni þeir yfirleitt aðeins tveimur pétursskipum, sem reyndar séu lífvænleg.

Fjórar tegundir hámúsa eru af hámúsaætt; geirnyt, stuttnefur, digurnefur og hvítnefur. Af trjónuætt eru langnefur og trjónufiskur.

Mynd/Hafrannsóknastofnun

Útbreiðsla flestra tegundanna virðist vera bundin við hlýjan sjó frá miðum og djúpmiðum suðaustanlands til Grænlandssunds. Geirnyt er algengasta hámúsategundin í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar og er útbreiðsla hennar ólík hinum að því leyti að hún heldur sig grynnra og í tiltölulega hlýrri sjó. Geirnyt getur orðið 120 sentimetra löng eða lengri, en er oftast 70-95 cm. Lengsta geirnyt á Íslandsmiðum mældist 110 cm.

Stuttnefur, digurnefur, hvítnefur, langnefur og trjónufiskur flokkast sem djúpsjávartegundir og af þeim er trjónufiskur algengastur. Sjaldgæfasta hámúsin í stofnmælingaleiðöngrum er hvítnefur sem hefur aðeins fundist sjö sinnum yfir það tuttugu ára tímabil sem rannsóknin spannar. Langnefur veiddist að meðaltali á mesta dýpi en stuttnefur og hvítnefur í kaldasta sjónum. Niðurstöður skýrslunnar benda til að geirnyt og trjónufiski hafi fjölgað og jafnframt að trjónufiski hafi fjölgað á norðlægari svæðum útbreiðslunnar, þ.e. djúpt vestur af landi.

Mörg heiti á fiskunum

Ýmis nöfn hafa verið notuð á þessa fiska og þá yfirleitt geirnytina. Líklega eru hámýs og hákettir algengustu heitin, einnig hafmús og háfmús. Heitið rottufiskur er einnig þekkt og er það þýðing úr ensku. Það heiti gæti tengst því að sporður fiskanna minnir á hala, auk þess sem þeir eru með trjónu og samvaxnar tennur.

Um fjölda fiska á Íslandsmiðum er á vísindavef Háskólans vitnað til „fiskatals“ sem Gunnar Jónsson fiskifræðingur tók saman. Þar kemur fram að árið 2000 hafi verið vitað um 360 fisktegundir sem fundist hefðu í íslenskri lögsögu, sumar þeirra mjög sjaldgæfar. Af þessum 360 tegundum voru 39 tegundir brjóskfiska, þar af 19 háffiskar, 14 skötutegundir og sex hámýs. Beinfiskategundirnar voru 319. Í heimshöfunum þekkjast 24-25 þúsund fisktegundir, segir á Vísindavefnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.684 kg
Ýsa 2.107 kg
Langa 53 kg
Samtals 9.844 kg
9.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 8.433 kg
Ýsa 689 kg
Steinbítur 209 kg
Karfi 58 kg
Langa 14 kg
Keila 9 kg
Sandkoli 2 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 9.415 kg
9.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 123 kg
Þorskur 118 kg
Langa 95 kg
Ufsi 28 kg
Samtals 364 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.684 kg
Ýsa 2.107 kg
Langa 53 kg
Samtals 9.844 kg
9.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 8.433 kg
Ýsa 689 kg
Steinbítur 209 kg
Karfi 58 kg
Langa 14 kg
Keila 9 kg
Sandkoli 2 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 9.415 kg
9.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 123 kg
Þorskur 118 kg
Langa 95 kg
Ufsi 28 kg
Samtals 364 kg

Skoða allar landanir »