Mikil eftirspurn hefur verið eftir frystum fiski í Bretlandi síðustu mánuði, sérstaklega sjófrystum afurðum. Friðleifur Friðleifsson, deildarstjóri hjá Iceland Seafood, hefur lengi starfað að sölu á sjávarafurðum frá Íslandi og segir að á sínum 28 ára ferli hafi hann ekki kynnst annarri eins eftirspurn eftir sjófrystum afurðum og undanfarið.
Friðleifur segir að mikil eftirspurn hafi haft drjúgar hækkanir í för með sér. Hann nefnir dæmi um að verð fyrir sjófrystan þorsk í Bretlandi hafi hækkað um 30% frá byrjun síðasta árs og mikil hækkun hafi orðið síðustu mánuði. Verð fyrir aðrar frystar afurðir hafi einnig hækkað.
Um ástæður þessa segir hann að veiði Norðmanna og Rússa í Barentshafi hafi dregist saman. Ekki komi mikið af afurðum frá Kína um þessar mundir, en þar er fiskur frá Noregi og Rússlandi gjarnan þíddur upp, fullunninn og frystur aftur áður en hann fer á markaði, m.a. í Bretlandi. Í Kína séu margar fiskvinnslur lokaðar vegna kórónufaraldursins, erfiðleikar séu með flutningsleiðir og verð fyrir flutninga hafi hækkað gífurlega.
„Í faraldrinum síðustu mánuði hafa Bretar verið trúir venjum og hefðum og borðað fisk og franskar eins og enginn væri morgundagurinn,“ segir Friðleifur. „Í Bretlandi eru um 11.000 staðir sem sérhæfa sig í fish and chips. Þessir veitingastaðir eru inni í hverfunum, en aðra skyndibitastaði er frekar að finna á verslunarsvæðum, í verslunarmiðstöðvum og við hraðbrautir.
Í faraldrinum hefur aðgengi að stöðum með fisk og franskar verið miklu betra en að hinum stöðunum. Þá voru fiskistaðirnir fljótir að laga sig að veirureglum og takmörkunum og hægt var að sækja matinn á staðina eða fá hann afgreiddan í gegnum lúgu. Þannig tókst rekstraraðilum staðanna að viðhalda sínum viðskiptum og jafnvel auka þau og sannarlega hefur verið nóg að gera í sölu á fiski í Bretlandi síðustu sjö mánuði eða svo,“ segir Friðleifur.
Útflutningur á sjófrystum afurðum til Bretlands dróst verulega saman í fyrra, eða sem nemur um 27% bæði í verðmætum og magni. Í raun hefur útflutningur á sjófrystum afurðum til Bretlands ekki verið minni á þessari öld sé horft til magns á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Alls voru fluttar út sjófrystar afurðir til Bretlands fyrir tæpa 10 milljarða króna í fyrra samanborið við 14 milljarða króna árið á undan. Þennan samdrátt má að langstærstum hluta rekja til þriðjungs samdráttar í útflutningsverðmætum þorskafurða á milli ára, sem fóru úr 9,4 milljörðum króna í 6,3 milljarða. Eins var samdráttur í ýsu sem nemur tæpum 9%. Bæði verð á sjófrystum þorski og ýsu hækkaði hins vegar mikið eftir mitt síðasta ár.
Á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins, sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi halda úti, má sjá að sjófrystar afurðir vógu að jafnaði um 14% af útflutningsverðmætum sjávarafurða á öðrum áratug þessarar aldar. Langstærsti hluti sjófrystra afurða eru botn- og flatfiskafurðir, en þær vógu rúm 92% af útflutningsverðmæti sjófrystra afurða á tímabilinu. Þar vegur þorskurinn þyngst, svo karfi og grálúða. Hlutdeild uppsjávarafurða var rúm 7% á tímabilinu, mest síld og svo loðna. Vægi uppsjávarafurða var mun minna undir lok tímabilsins, meðal annars vegna loðnubrests.
Þrátt fyrir ofangreindan samdrátt er Bretland langstærsta viðskiptaland Íslendinga fyrir sjófrystar afurðir. Vægi Bretlandsmarkaðar í sjófrystum afurðum var um 33% á síðasta ári, en Kína var í öðru sæti með rúm 12%. Hlutdeild Bretlandsmarkaðar í sjófrystum afurðum var komin í 40% árin 2019 og 2020 en hafði verið 22% fyrir áratug, samkvæmt upplýsingum SFS.