Humarinn mjög kresinn á búsvæði

„Humarinn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gamall …
„Humarinn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gamall eða eldri og mátti sjá af veiðum 2010 að nýliðunarbrestur virtist vera að eiga sér stað,“ segir Jónas. mbl.is/Hákon

Leitun er að betra sjávarfangi en íslenskum leturhumri og því ekki skrítið ef það fær sælkera til að ókyrrast, hve bágborið ástand leturhumarstofnsins er orðið. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar fylgjast vandlega með humrinum og má greina vísbendingar um að stofninn kunni að styrkjast þegar fram í sækir.

Jónas Páll Jónsson er fiskifræðingur hjá Hafró og tók þátt í áhugaverðri nýrri rannsókn, þar sem hljóðmerki voru notuð til að fylgjast með ferðum leturhumars á sjávarbotni og öðlast betri skilning á hegðun dýrsins.

„Niðurstöður könnunar á stofnstærð leturhumars undanfarin tvö ár hafa leitt til þess að Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt stjórnvöldum að leyfa engar veiðar á þessu ári og því næsta,“ segir Jónas Páll. Hann bætir við að það hafi mátt greina fyrstu merki um óhagfellda þróun stofnsins árið 2010. „Humarinn veiðist þegar hann er orðinn um fimm ára gamall eða eldri og mátti sjá af veiðum 2010 að nýliðunarbrestur virtist vera að eiga sér stað og hefur þá byrjað árin 2005 og 2006. Var lífmassi leturhumars í hámarki árið 2009 en yngri humarinn afskaplega lítill og lélegur, þótt næstu árin á eftir hafi enn veiðst vel af stórum humri, sem oft er orðinn 15 til 20 ára.“

Leturhumarinn unir sér best þar sem sjávarbotninn er leirkenndur.
Leturhumarinn unir sér best þar sem sjávarbotninn er leirkenndur. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Hlédrægur holubúi

Íslenskur leturhumar unir sér best út af landinu sunnanverðu, þar sem sjávarbotninn er leirkenndur. Þar grefur hann sér holur til að búa í, á um 100 til 250 metra dýpi, og verða holurnar jafnvel að völundarhúsum með nokkrum opum upp á yfirborðið. Benda rannsóknir til að humarinn sé ekki mjög félagslyndur, nema á fengitíma, og að karldýrin verji sín yfirráðasvæði af hörku. Kvendýrin virðast fara stutt frá sinni holu en karldýr fara yfir stærra svæði. Meiri óvissa er með unga humarinn, þegar hann nær því þroskaskeiði að verða botnlægur. Þó er talið að hann dvelji jafnvel í minni holum inn af holum eldri dýra.

„Eftir klak geyma kvendýrin frjóvguð eggin undir halanum á sér og eru meira og minna ofan í holunni sinni allan veturinn en sleppa lirfunum að vori og verða þær þá sviflægar,“ útskýrir Jónas. Ein sennileg skýring á slæmu ástandi stofnsins er að aðstæður í uppsjónum hafi versnað og að humarlirfurnar hafi skort næringu til að vaxa og lifa af.

Humarinn hefur verið verðmætur nytjastofn, en engin veiði hefur verið …
Humarinn hefur verið verðmætur nytjastofn, en engin veiði hefur verið undanfarið. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í dag erum við að upplifa hlýindaskeið sem hófst árið 1996 í hafinu umhverfis Ísland. Lengst af veiðisögu íslenska leturhumarsins hefur hafið verið kaldara sem meðal annars sést á því að algengara var að hafís lægi við landið. Hlýrri sjór er næringarsnauðari og hitabreytingarnar kunna líka að hafa haft áhrif á þroskun eggjanna sem kvendýrið geymir yfir klaktímann. Breytingarnar gætu valdið ójafnvægi, þar sem eggin klekjast út fyrr og á óheppilegum tíma. Með upplýsingum frá gervihnöttum, hafa þörungasérfræðingar okkar einnig greint seinkun í hámarki vorblómans á þessu tímabili. Ef lirfurnar mæta fyrr á svæðið sökum hlýrri sjávar, þá er enn ólíklegra að hungraðar humarlirfurnar finni æti við hæfi.“

Segir Jónas að mögulega sé að finna samsvörun í ástandi leturhumars og annarra stofna og getur t.d. verið að þau umhverfisáhrif sem valda sveiflum í sandsílastofninum hafi líka áhrif á humarinn. Svo virðist sem sandsílastofninn hafi tekið að styrkjast undanfarin tvö til þrjú ár og kannski að það gefi tilefni til bjartsýni um að humarinn braggist betur og gæti þá verið kominn í veiðistærð að nokkrum árum liðnum.

Farinn að sjást á gömlum veiðisvæðum

Jónas bendir á að hlýindaskeiðið í hafi sé hluti af eðlilegri sveiflu en síðast var hlýindaskeið á Íslandsmiðum upp úr 1930 og stóð yfir fram til um 1960. Mögulegt er að hámarki núverandi hlýskeiðs sé náð og ef það er hitastigið sem er að spilla fyrir humarstofninum, ætti hann að þrífast betur ef sjórinn fer að kólna. Stofninn virðist hafa litla getu til að aðlagast breyttum aðstæðum með því að flytja sig um set og segir Jónas að humarinn sé mjög kresinn á búsvæði. Vill hann hafa sjávarbotninn mjög leirkenndan og á þeim svæðum þar sem aðeins örlítið magn af sandi blandast leirnum eru humrar mun sjaldséðari.

„Þekktustu veiðisvæðin eru utan við Suðausturlandið og hefst humarinn við þar í dölum eða dýpum sem fornir skriðjöklar grófu. Humarinn er lítið á ferðinni og þó hann skipti stundum um holur, þá eru flutningarnir sambærilegri við það að flytja úr Breiðholti í Kópavoginn.“

Er aðlögunargetan þó nokkur, því að humarveiðimenn hafa freistað gæfunnar á gömlum veiðisvæðum út af Snæfellsnesi og haft erindi sem erfiði. „Þetta eru svæði þar sem humar veiddist í kringum 1960 en veiðarnar duttu síðan niður. Stakir humrar hafa líka veiðst í Ísafjarðardjúpi, en ekki er til þess vitað að þeir hafi áður veiðst svo norðarlega við Ísland.“

Þurftu að vinna undir rauðum ljósum

Sennilega er ekkert hægt að gera til að hjálpa leturhumrinum, annað en að hlífa honum við veiðum og flytja á meðan inn erlendan humar til að setja á grillið eða sjóða í súpu. Þá hjálpar líka að rannsaka stofninn vel og vandlega og bæta þannig við þekkingu okkar á dýrinu. Hljóðmerkjarannsóknin, sem minnst var á í inngangi greinarinnar, er einmitt til þess gerð að skilja betur hvernig humarinn hegðar sér og hvernig hann bregst við áreiti og breytingum í umhverfi sínu.

Jónas segir aðeins eina sambærilega rannsókn hafa farið fram, á vistsvæði humra á litlu svæði í Miðjarðarhafinu og var íslenska rannsóknin töluvert viðameiri.

Hljóðmerki sett á humar. Að störfum í rauðu myrkri í …
Hljóðmerki sett á humar. Að störfum í rauðu myrkri í Jökuldýpi, frá vinstri Hjalti Karlsson, Guðjón Már Sigurðsson og Jónas Páll Jónasson. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir

Var humarinn veiddur af mikilli varkárni um miðja nótt í niðamyrkri og meðhöndlaður blíðlega af vísindamönnunum sem festu hljóðmerki á bak humranna. Aðeins mátti nota rautt ljós á dekkinu enda augu humarsins mjög næm og gætu venjulegir ljóskastarar skaddað sjón dýrsins. Voru humrarnir síðan látnir síga gætilega niður á hafsbotninn þar sem þeim var sleppt, sem næst þeim stað þar sem þeir voru veiddir. Loks var hljóðduflum komið fyrir með hundrað metra millibili á vistsvæði humranna til að nema og skrá hljóðið í sendunum en hver þeirra gaf frá sér merki á um 50 sekúndna fresti. Með því að samkeyra upplýsingar úr hljóðduflunum mátti staðsetja hvert hljóðmerki og greina ef humar færði sig um set. Þá mátti greina hvenær humarinn var ofan í holu sinni, því þá dempaðist eða hvarf hljóðmerkið.

Jónas segir að þó sum dýrin hafi ekki lifað tilraunina af, þá hafi þau sem spjöruðu sig útvegað rannsakendum mikið magn upplýsinga. Samhliða hljóðvöktuninni voru aðstæður í hafinu á rannsóknarsvæðinu skráðar af nákvæmni. „Gögnin sýna okkur m.a. hversu marga fermetra hvert dýr fer yfir að jafnaði og hvar ytri mörk vistsvæðis hvers einstaklings liggja. Styrkur hafstrauma hafði greinileg áhrif á það hvort humrarnir voru á ferli eða héldu kyrru fyrir í holum sínum og einnig hversu mikil birta berst niður á hafsbotninn. Þá var munur á hegðun humranna eftir því á hversu miklu dýpi þeir voru,“ útskýrir Jónas og bætir við að vel sé þekkt úr aflagögnum sjómanna og rannsóknum með humarvörpu að þegar þörungablómi dempar sólarljósið, fara humrarnir frekar á kreik. Einnig gerist það þegar ránfiskur eins og þorskurinn gengur yfir slóðina, að þá er lítið um humar. „Humarinn heldur þá kyrru fyrir í holunni sinni og væntanlega hjálpa þá stór nýrnalaga augun honum að sjá vel frá sér.“

Hljóðmerki límt á humar.
Hljóðmerki límt á humar. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.684 kg
Ýsa 2.107 kg
Langa 53 kg
Samtals 9.844 kg
9.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 8.433 kg
Ýsa 689 kg
Steinbítur 209 kg
Karfi 58 kg
Langa 14 kg
Keila 9 kg
Sandkoli 2 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 9.415 kg
9.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 123 kg
Þorskur 118 kg
Langa 95 kg
Ufsi 28 kg
Samtals 364 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.684 kg
Ýsa 2.107 kg
Langa 53 kg
Samtals 9.844 kg
9.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 8.433 kg
Ýsa 689 kg
Steinbítur 209 kg
Karfi 58 kg
Langa 14 kg
Keila 9 kg
Sandkoli 2 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 9.415 kg
9.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 123 kg
Þorskur 118 kg
Langa 95 kg
Ufsi 28 kg
Samtals 364 kg

Skoða allar landanir »