Hætt að fela af hvaða sjómönnum vinnan er tekin

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, spyr hvað …
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, spyr hvað það sé félagslegt við að auka hlut strandveiða ef það hefur í för með sér uppsagnir hjá útgerðum með aflamark. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú boða þingmenn VG 50% aukningu á umræddum tilfærslum til sumarstarfanna á strandveiðinni. Ég virði það við þessa þingmenn að nú er ekki, eins og áður var gert, verið að fela það af hvaða sjómönnum vinnan er tekin og til hverra hún er færð. Það mun skerpa alla umræðu um málið,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Vísar hann til þingsályktunartillögu fimm þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) um að auka það sem þeir kalla „félagslegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins“,svokallaðan atvinnu- og byggðakvóta, úr 5,3% af öllum útgefnum aflaheimildum í 8,3%. Segja þingmennirnir aðgerðina sérstaklega til þess fallna að auka heimildir sem ráðstafaðar eru strandveiðum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur vekur athygli á að umrædd krafa um tilfærslu aflaheimilda til strandveiða komi samhliða mikils niðurskurðar í leyfilegum hámarksafla í þorski. „Á síðustu þremur árum hefur veiði hlutastarfanna í strandveiðikerfinu aukist á meðan 25% niðurskurður hefur verið hjá öðrum. Þeim niðurskurði hefur verið mætt með uppsögnum og löngum fríum.“

Þá hafi sagan sýnt að „því meira sem stjórnvöld taka til félagslegra þátta því fleiri staðir verða í þörf fyrir félagsleg úrræði og flokkast sem brothættar byggðir. Ef þessari stefnu verður fylgt mun uppgangur strandveiðanna og uppsagnir hjá hinum halda áfram að haldast í hendur, sem hlýtur að kalla á þá spurningu hvað sé „félagslegt“ við það,“ veltir Pétur fyrir sér.

Grein Péturs Hafsteins í heild sinni:

Uppgangur og uppsagnir í brothættum byggðum

Eftir að erlend veiðiskip yfirgáfu Íslandsmið um 1970 hófu stjórnvöld mikla atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með lánveitingum til togarakaupa. Keyptur var skuttogari í hverja höfn í því augnamiði að stórauka afla Íslendinga. Aldrei í sögunni hefur hærra hlutfall íbúa landsins búið í sjávarbyggðum en árin þar á eftir. 15 árum seinna voru fiskimiðin þurrausin og fyrirtækin öll komin á vonarvöl vegna ofveiði. Allar sjávarbyggðir Íslands urðu að brothættum byggðum. Þá var gripið til stærstu og árangursríkustu efnahagsaðgerðar sögunnar, kvótakerfisins, sem byggðist á takmörkunum og niðurskurði á veiðum sem skyldi ákvarðast af vísindalegum niðurstöðum. Aflamark í þorski var skorið niður um 50% og illa stödd fyrirtæki fengu það hlutverk að byggja upp sinn eigin efnahag og fiskistofnana að nýju. Það verkefni tók 20 ár og um þá baráttu hefur mikið verið rætt og ritað og sitt hefur sýnst hverjum um aðferðir og árangur.

Á sama tíma og fyrirtækin börðust fyrir tilveru sinni í 50% niðurskurði bættu stjórnvöld í vandann með stórtækum tilfærslum á veiðiheimildum til nýrra aðila og unnu þar með gegn eigin markmiðum. Það var gert með ógrynni lítilla aðgerða sem allar byggðust á veiðum umfram ráðleggingar og rökstutt með því að „ekki væri neitt af neinum tekið“. Að sjálfsögðu var það ekki þannig og þegar 50 þúsund tonn höfðu verið færð á milli aðila í nýjum kerfum var því hætt og lína dregin við 5,3% pottinn sem stjórnvöld myndu fá til félagslegra bjargráða. En hér var skaðinn skeður. Mun fleiri fyrirtæki og einstaklingar höfðu lagt upp laupana en efni stóðu til vegna tilfærslna veiðiheimilda til viðbótar við nauðsynlegan niðurskurð til að byggja upp fiskistofnana. Af þessum ástæðum voru færri sjávarpláss sem komust undan því að teljast brothætt.

Síðan þá hafa fyrirtækin treyst á þá niðurstöðu að stjórnvöldum nægði 5,3% aflaheimilda og byggt upp sína starfsemi með þeim heimildum sem þau höfðu. Uppbygging með öruggum heilsársstörfum, tæknivæðingu, fjárfestingu í betri skipum, hámörkun aflaverðmætis og markaðsstarfi sem tryggir afhendingu afurða allt árið. Umræðan hætti að snúast um bjargráð og fór að snúast um hlut ríkisins í árangrinum. Þeim árangri var náð með sameiningum, kvótakaupum, fjárfestingum og annarri aðlögun sem fæstar voru átakalausar og flestar umdeildar.

En nú slær aftur í bakseglin. Enn á ný er komin krafa um nýjar tilfærslur til nýrra aðila samhliða miklum niðurskurði heildarveiði í þorski. Á síðustu þremur árum hefur veiði hlutastarfanna í strandveiðikerfinu aukist á meðan 25% niðurskurður hefur verið hjá öðrum. Þeim niðurskurði hefur verið mætt með uppsögnum og löngum fríum.

Nú boða þingmenn VG 50% aukningu á umræddum tilfærslum til sumarstarfanna á strandveiðinni. Ég virði það við þessa þingmenn að nú er ekki, eins og áður var gert, verið að fela það af hvaða sjómönnum vinnan er tekin og til hverra hún er færð. Það mun skerpa alla umræðu um málið.

Sagan kennir okkur að því meira sem stjórnvöld taka til félagslegra þátta því fleiri staðir verða í þörf fyrir félagsleg úrræði og flokkast sem brothættar byggðir. Ef þessari stefnu verður fylgt mun uppgangur strandveiðanna og uppsagnir hjá hinum halda áfram að haldast í hendur, sem hlýtur að kalla á þá spurningu hvað sé „félagslegt“ við það.

Pétur Hafsteinn Pálsson

Höfundur er framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.864 kg
Þorskur 854 kg
Hlýri 81 kg
Ufsi 21 kg
Karfi 16 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 2.838 kg
9.1.25 Indriði Kristins BA 751 Lína
Steinbítur 366 kg
Þorskur 273 kg
Langa 207 kg
Keila 44 kg
Ýsa 42 kg
Karfi 40 kg
Samtals 972 kg
9.1.25 Fjølnir GK 757 Lína
Þorskur 4.806 kg
Ýsa 3.266 kg
Langa 918 kg
Samtals 8.990 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.1.25 583,09 kr/kg
Þorskur, slægður 9.1.25 586,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.1.25 339,18 kr/kg
Ýsa, slægð 9.1.25 319,88 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.1.25 261,13 kr/kg
Ufsi, slægður 9.1.25 275,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 9.1.25 230,47 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

9.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.864 kg
Þorskur 854 kg
Hlýri 81 kg
Ufsi 21 kg
Karfi 16 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 2.838 kg
9.1.25 Indriði Kristins BA 751 Lína
Steinbítur 366 kg
Þorskur 273 kg
Langa 207 kg
Keila 44 kg
Ýsa 42 kg
Karfi 40 kg
Samtals 972 kg
9.1.25 Fjølnir GK 757 Lína
Þorskur 4.806 kg
Ýsa 3.266 kg
Langa 918 kg
Samtals 8.990 kg

Skoða allar landanir »