Brim hf. og Akraneskaupstaður hafa skrifað undir samning um framhald á starfsemi Breiðar þróunarfélags til næstu þriggja og hálfs árs eða til loka árs 2026.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Brims.
Þar segir að Akraneskaupstaður og Brim hafi sett sér sameiginleg markmið um að unnið verði á tímabilinu að því að efla starfsemi Breiðar sem vettvangs nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Áherslan verði m.a. lögð á rannsóknir og nýtingu auðlinda hafsins, aðgerðir gegn súrnun sjávar og aðgerðir í loftslagsmálum til að mæta markmiðum Íslands í loftslags- og umhverfismálum.
Jafnframt að sameiginlega verði unnið að breytingum á aðalskipulagi Breiðarinnar og nýju deiliskipulagi á grundvelli vinningstillögunnar „Lifandi samfélag við sjó“ sem unnin var af arkitektastofunni Arkþing/Nordic og Eflu verkfræðistofu. Markmið hlutaðeigandi er að skipulagsvinnu verkefnisins ljúki á árinu 2025.
„Breið þróunarfélag var stofnað í júlí 2020 og eru aðilar sammála um að verulegur og jákvæður árangur hafi verið af samstarfinu frá stofnun þess. Þann árangur má m.a. sjá í uppbyggingu nýsköpunarseturs og nýjum störfum sem hafa skapast á Akranesi í ýmsum greinum en þó aðallega rannsóknum og þróun. Varðandi þróun Breiðarinnar liggja fyrir niðurstöður hugmyndasamkeppni og vinningstillaga sem aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar framtíðaruppbyggingu á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Framkvæmdastjóri félagsins er Valdís Fjölnisdóttir og í stjórn sitja: Gísli Gíslason, starfandi stjórnarformaður, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, og Inga Jóna Friðgeirsdóttir, fjármálastjóri Brims.