Snarphali er eflaust ein af þeim fiskitegundum sem fæstir Íslendingar kannast við en hann
þykir ágætur matfiskur, ekki ósvipaður þorski og öðrum slíkum botnfiski á bragðið. Það sem af er fiskveiðiári 2022/2023 hafa íslensk skip landað rúmlega 60 tonnum af snarphala og er það meira en gert var þrjú fiskveiðiárin á undan, að því er fram kom í síðasta blaði 200 mílna.
Segja má að snarphalinn hafi andlit sem aðeins móðir getur elskað. Fiskurinn er lang- og þunnvaxinn með haus sem er um fjórðungur búksins að stærð og gríðarstór augu. Það er raunar ekki furða að enskumælandi þjóðir kalli hann „onion eye“ eða laukauga í beinni þýðingu.
Snarphalar geta orðið um metri að lengd. Sá stærsti sem veiðst hefur var skráður 110 sentímetrar og náðist á grálúðuslóð vestan Víkuráls 1995, en tegundin er algengur meðafli á grálúðuveiðum.
Snarphalinn er kannski ekki fríður að sjá.
Ljósmynd/Asgeir Kvalsund
Snæfell landaði 30 tonnum
Frá upphafi fiskveiðiársins 2019/2020 hafa íslensk fiskiskip landað tæplega 193 tonnum af snarphala, að því er segir í talnagögnum Fiskistofu. Þar af hefur Guðmundur í Nesi RE-13, sem Útgerðarfélag Reykjavíkur ehf. gerir út, landað tæplega 97 tonnum eða helmingi þess afla sem skipin hafa veitt. Var mesti aflinn fiskveiðiárið 2021/2022 þegar Guðmundur í Nesi landaði 33,2 tonnum en það sem af er fiskveiðiári hefur skipið landað 23,1 tonni.
Sérstaka athygli vekur að Samherji virðist ætla að verða aflahæst í tegundinni á fiskveiðiárinu og hefur Snæfell EA-310 þegar landað 30,5 tonnum af snarphala. Fiskveiðiárið 2021/2022 landaði Snæfell aðeins tæpum þremur tonnum og árin þar á undan lönduðu skip Samherja nánast engum snarphala.
Nánar má lesa um málið í síðasta blaði 200 mílna.