Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum voru í maí síðastliðnum 762,6 milljónir króna sem er um 8% minni tekjur en í sama mánuði á síðasta ári. Var innheimt gjald af rúmlega 194 þúsund tonnum af sjávarfangi í fyrr en aðeins rúm 144 tonnum í sama mánuði í ár. Aflinn sem er til grundvallar gjaldinu dregst því saman um tæpan fjórðung.
Hins vegar hafa tekjur af innheimtu gjaldsins verið verulega hærri aðra mánuði ársins og nema tekjur frá janúar til maí 5.152 milljónum króna sem er 73% meira en fékkst á sama tímabili 2022, en allt síðasta ár voru greiddar 7.889 milljónir í veiðigjöld.
Þetta má lesa úr álagningu veiðigjalda sem birt hefur verið á upplýsingaveitu hins opinbera, Island.is.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins greiddu 828 aðilar veiðigjöld en Brim hf. er stærsti staki greiðandi veiðigjalda og hefur félagið greitt 577,5 milljónir króna á tímabilinu. Fimm félög hafa greitt meira en 300 milljónir og eru það Síldarvinnslan hf. sem hefur greitt 528 milljónir, Ísfélag hf. með 442,2 milljónir, Samherji ehf. með 381,7 milljónir og Vinnslustöðin hf. sem greitt hefur 316,8 milljónir króna í veiðigjöld.
Samanlagt hafa tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum þessa fimm félaga sem greitt hafa mest verið 2.246,5 milljónir króna og er það 43,6% af öllum greiddum veiðigjöldum. Þau tíu sem greiddu mest stóðu fyrir 73,7% af innheimtum veiðigjöldum eða 3.798 milljónum króna.
Auk þess að hafa greitt mest í veiðigjöld á fyrstu fimm mánuðum er Brim einnig stærsti staki greiðandi veiðigjalda í maí og greiddi fyrirtækið 77,3 milljónir króna. Greiddi Samherji rúmar 53 milljónir sem er næst hæsta upphæðin í maímánuði, en Síldarvinnslan greiddi 49,8 milljónir, Þorbjörn 39,3 milljónir og FISK Seafood 34,9 milljónir.
Þessi fimm félög greiddu því samanlagt 254 milljónir króna sem eru 33% af álögðum gjöldum. Hlutfallið er minna í maí en fyrir fyrstu fimm mánuði í heild meðal annars vegna þess hve þungt tekjur af loðnuvertíðinni vega í upphafi árs. Einnig fullnýttu lang flestar útgerðir 40% afslátt sem gefinn er af fyrstu 7.867.192 krónunum á fyrsta ársfjórðungi.
Þorskur skilaði mestum tekjum í ríkissjóð vegna veiðigjalda í maí, alls 378,6 milljónum króna. Næst mestum tekjum skilaði kolmunni og námu álögð veiðigjöld rúmlega 149 milljónum, en þar á eftir fylgir ýsa með rúma 101 milljón.
Veiðar á þorski á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa skilað ríkissjóði 1.847,8 milljónum króna vegna veiðigjalds, en þorskaflinn sem til grundvallar álagningarinnar var rúmlega 96 þúsund tonn á tímabilinu. Athygli vekur að veiðigjöld sem lögð eru á loðnu hafi skilað 1.804,6 milljónum króna og er það fyrir tæp 326 þúsund tonn.