Bókin „100% Fish – How smart seafood companies make better use of resources“ inniheldur fjölda frásagna um hvernig nýsköpun sem eykur nýtingu og verðmæti sjávarafurða – og minnkar þannig kolefnisspor hverrar framleiddrar vöru – hefur komið til. Ekki síst er lýst hversu mikilvægt sé að sjávarútvegurinn sjálfur sé opinn fyrir nýjungum til að hugmyndir verði að veruleika.
Fjöldi frásagnanna eru frá Íslandi og sagði höfundurinn, Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans, nýverið í samtali við Morgunblaðið bókina vera hvatningu til alþjóðlega sjávarútvegsins um að gera betur þegar kemur að fullnýtingu sjávarafurða og til að stuðst verði við íslenska aðferðarfræði til að ná hámarksárangri í fullnýtingu og sjálfbærni.
„Segja má að bókin sé eins og handbók fyrir þá sem vilja taka þessi skref. Um leið er hún það sem mér hefur alltaf þótt vanta, sem er samansafn af sögum af fyrirtækjum víða um heim – þar af mörg á Íslandi – sem hafa verið einstakir frumkvöðlar í útgerð og nýsköpun. Þetta hefur vonandi þau áhrif að það hvetur aðra til dáða,“ sagði Þór.
Í bókinni er sagt frá því hvernig hugarfar Sigurðar Einarssonar, sem var eigandi og forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja til hann lést árið 2000, leiddi til umfangsmikilla umbóta í sjávarútvegi og matvælaiðnaði hér á landi og mun víðar.
Meðal frásagna af Sigurði í bókinni er fjallað að samstarf ÍSfélagsins og ThorICE. Þar segir: (í þýðingu blaðamanns): „Þorsteinn Ingi Víglundsson, stofnandi sprotatæknifyrirtækisins ThorIce, kynnti Sigurði Einarssyni nýjar hugmyndir sem hann hafði þróað til að kæla fiskafla. Hann festi hitamæli við endann á langri stöng og dýfði honum djúpt í einn tankinn um borð í einu af skipi Sigurðar. Það kom töluvert á óvart hversu hátt hitastig fisksins var og hversu mikið af ísnum sem bætt var í tankinn hafði sest á botninn þar sem hann hafði lítil áhrif. Allan þennan tíma hafði hluti aflans verið geymdur við of hátt hitastig og verðmæti hans minnkaði hratt.
Sigurður hafði orð á sér fyrir að taka vel á móti frumkvöðlum sem færðu honum nýjar hugmyndir og í þetta skipti olli hann ekki vonbrigðum. Hann vildi gera breytingar þótt engin dæmi væru um að fyrirtæki hefðu áður nýtt sér þessa tækni. Frumkvöðulinn taldi að um leið og einhver hefði tekið skrefið til að vera fyrstur, þá væri auðveldara að selja þessa tækni til annarra.
Þetta umhverfisvæna kerfi hefur skilað sér í umtalsverðum endurbótum á kælingu fisks, á sjó og í landi og er þetta orðin alþjóðlega viðurkennd vara. Allir enda sigurvegarar, ekki síst umhverfið.
Þannig byrjaði ThorIce og hefur átt sér stað umbylting í matvælakælingu í heiminum. ThorIce var nýlega tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Markmiðið með lausnum félagsins er að ná hraðari kælingu og orkusparnaði, en jafnframt að bæta gæði aflans.“
Einnig er í bókinni „100% Fish“ sagt frá því hvernig Valka, sem keypt var af Marel, varð til. Þar segir: „Verkfræðingurinn Helgi Hjálmarsson verkfræðingur, stofnandi tæknifyrirtækisins Völku – sem nú er hluti af Marel – var með hugmynd að nýrri leið til að hanna vinnslulínur sem myndi gera kleift að meðhöndla aflann betur og verða grænni. Til þess að þetta yrði að veruleika þurfti hann fjármagn og fór til útgerðar- og vinnslufyrirtækisins Brim (þá HB Granda) til að útskýra hvað hann hafði í huga.
Eftir ítarlega kynningu á nýju uppsetningunni og eftir að hafa svarað mjög mörgum spurningum var fyrirtækið áhugasamt. Þetta fékk fljúgandi start sem kom öllum til góða. Þetta eins manns fyrirtæki sem fór til Brims fyrir tuttugu árum hefur síðan vaxið hratt, með um 100 starfsmenn á Íslandi og í Noregi. Tæknirisinn Marel hefur nýlega keypt Völku. Hjá Marel starfa um 6.000 manns um allan heim.“