Af þeim 250 milljónum gáma sem flutningaskip sigldu með milli áfangastaða á síðasta ári fóru féllu aðeins 221 gámur útbyrðis, þar af tókst að endurheimta um 33%. Þetta er minnsti fjöldi gáma sem glatast á sjó frá því að samræmd talning hófst árið 2008 og slær út fyrra met frá 2022 þegar 661 gámur féll frá borði.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri skýrslu alþjóðasamtaka skipaflutninga (World Shipping Council) um gáma sem tapast á sjó.
Um er að ræða mikinn viðsnúning en árið 2021 féllu um 2.200 gámar útbyrðis og tæplega fjögur þúsund gámar féllu útbyrðis 2020.
Árið 2013 glötuðust fleiri gámar en nokkuð ár sme mælingar ná til, um fimm og hálft þúsund stykki. Má rekja bróðurpartinn af þeim gámum til staks atviks. Var það þegar flutningaskipið MOL Comfort lenti í aftakaveðri á Indlandshafi árið 2013 á leið sinni frá Singapúr til Jedda í Sádí Arabíu. Í óveðrinu brotnaði skipið í tvennt á miðju skipsins og við það töpuðust 4.293 gámar.
Árangur markvissrar vinnu
Í skýrslunni segir að þessi litli fjöldi sem féll útbyrðis á þessu ári sé til marks um að aukin áhersla á umbætur á sviði öryggis í skipaflutningum hafi skilað árangri. Er þar sérstakelga bent á aukið siglingaöryggi og bætt leiðarval.
Átaksverkefnið „Marin TopTier Joint Industry Project“ er sagt hafa skilað „áþreifanlegum niðurstöðum um orsakir þess að gámar lenda útbyrðis ásamt ráðleggingum og þjálfunarefni um hvernig sé hægt að forðast og bregðast við mismunandi tegundum hættulegra öfgakenndra velltinga (e. Parametric rolling).“ Er vísað til atvika þar sem sem skip skyndilega geta byrjað að velta 30 til 40 gráður.
Endanleg skýrsla verkefnisins mun byggja á niðurstöðum og ráðleggingum sem rekja má til fjölda vísindarannsókna, greininga á grundvelli bestu starfsvenja iðnaðarins og uppfærðra öryggis-, gáma- og festingarstaðla. Jafnframt munu vera til staðar leiðbeiningar og ráðleggingar um uppfærslur á reglugerðum.