Nú um mánaðamótin verður öll starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins Þorbjarnar hf. aftur komin í Grindavík, en frá því að bærinn var rýmdur í nóvember í fyrra hafa skrifstofur og ýmis þjónusta við útgerðina verið á höfuðborgarsvæðinu.
Nú þegar bærinn er opinn að nýju þykir hins vegar engin ástæða til annars en að fara aftur á fyrri stað með starfsemina, sem reyndar hefur verið breytt talsvert frá því sem var. Landvinnslu Þorbjarnarins hefur verið hætt, en þyngst vegur að nú hefur fyrirtækinu verið skipt upp í þrjú rekstrarfélög, sem hvert um sig verður með sín skip og sjálfstæða starfsemi.
„Eins og gengur í fyrirtækjarekstri þá kemur sá tímapunktur að eigendur huga að framtíð skipa,“ útskýrir Gunnar Tómasson framkvæmdatsjóri Þorbjarnar í viðtali í Morgunblaðinu í dag. „Niðurstaða eigenda Þorbjarnar hf. var sú að skipta fyrirtækinu upp í þrjú rekstrarfélög, sem hvert og eitt einblínir á útgerð eins skips. Eignarhald fyrirtækjanna þriggja verður það sama og er í Þorbirni hf.“
Gunnar Tómasson og synir hans, Jóhann Vignir Óskar, Tómas og Brynjar, taka við útgerð Hrafns Sveinbjarnasonar GK með því sem tilheyrir, svo sem veiðiheimildum. Synir Eiríks Tómassonar heitins, Heiðar Hrafn, Gunnlaugur, Tómas Þór og Gunnar, verða með rekstur Tómasar Þorvaldssonar. Gerður Sigríður Tómasdóttir og synir hennar, Hrannar Jón Emilsson og Helgi Hrafn, munu hafa með höndum rekstur þriðja fyrirtækisins, þess sem mun gera út nýtt skip, Huldu Björnsdóttir. Togaranum Sturlu verður lagt þegar nýja skipið er komið í full not.
Stórskipið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 verður eign og í útgerð Bliku hf., fyrirtækis Gunnars Tómassonar og sona hans.
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Svo var komið að margir í okkar fjölskyldu vildu taka þátt í rekstri Þorbjarnar og svo allir fengju að njóta sín var farið í þessa uppskiptingu, sem nú er að komast til framkvæmda. Vissulega töpum við einhverri samlegð og hagræðingu með þessari ráðstöfun, en fáum í staðinn meðal annars starfskrafta ungs fólks með kraft og nýjar hugmyndir,“ segir Gunnar.
Viðtalið við Gunnar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.