Margar útgerðir og vinnslur hafa veitt sínu fólki veglegt leyfi yfir hátíðarnar og eru fáir sem hafa haldið til sjós. Þó hafa nokkur fiskiskip gert það, en flest þeirra eru togarar sem sækja á miðin norðvestur af landinu. Enginn afli hefur verið í boði á fiskmörkuðum í dag, enda fáir almennir vinnudagar yfir hátíðarnar þetta árið.
Línubáturinn Háey II ÞH-275, sem Gullhólmi ehf. gerir út frá Raufarhöfn, hélt til veiða um ellefu í gærkvöldi og hefur verið á veiðum á Þistilfirði í nótt. Líklega landar báturinn fyrir hádegi í dag.
Þá lagði bátur K&G Hrísey ehf., Fanney EA-48, frá bryggju í Hrísey upp úr miðnætti og hefur verið á veiðum út af Flateyjarskaga. Þar er báturinn enn er þetta er ritað.
Kaldbakur EA-1 og Björg EA-7, togarar Samherja, héldu til veiða frá Akureyri um hálf eitt í nótt og settu stenfuna til norðvesturs á miðin út af Vestfjörðum. Harðbakur EA-3 sem Smaherji einnig gerir hút lagði síðan frá bryggju á Akureyri um tíu mínútur fyrir eitt.
Birtingur NK-119 sem Skinney-Þinganes gerir út lagði frá bryggju á Dalvík rétt fyrir klukkan tvö í nótt.
Um hálf tvö hélt togarinn Sirrý ÍS-37 sem Jakob Valgeir ehf. gerir út til veiða frá Bolungarvík og hefur verið til þessa við Nesdjúp en stefnir nú til vesturs. Rétt eftir klukkan tvö hélt einnig línubáturinn Jónína Brynja ÍS-55, sem útgerðin gerir einnig út frá Bolungarvík, til veiða og hefur verið á veiðum við fjarðarmynni Ísafjarðadjúps.
Um korter fyrir átta í morgun hélt dragnótarbátur Mýrarholts ehf., Ásdís ÍS-2, frá Bolungarvík og hefur verið á veiðum út af Aðalvík.
Í nótt héldu einnig tveir togarar Brims hf. til veiða. Lét Akurey AK-10 frá bryggju í Reykjavík um tuttugu mínútur fyrir eitt í nótt og rúmlega hálftíma seinna gerði Viðey RE-50 hið sama. Stefna togararnir á miðin út af Vestfjörðum.
Sjöfn SH-4 sem gerð er út á ígulker frá Stykkishólmi er rétt ókomin til hafnar eftir að hafa verið á veiðum í utanverðum Hvammsfirði frá snemma í morgun. Sama á við Fjólu SH-7, en báðir bátarnir eru gerðir út af Þórishólma ehf. í Sykkishólmi.
Um klukkan átta í morgun hélt Bárður SH-81 til veiða frá Rifi og hefur verið á veiðum út af Hellissandi og landar líklega síðdegis.