Binda enda á 63 ára útgerðarsögu

Pétur Sigurðsson nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólrúnar ehf. segir rekstrarumhverfi smærri …
Pétur Sigurðsson nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólrúnar ehf. segir rekstrarumhverfi smærri útgerða orðið fjandsamlegt. mbl.is/Þorgeir

GPG Seafood ehf. á Húsavík gekk á fimmtudag frá kaupum á útgerðarfélaginu Sólrúnu ehf. á Árskógssandi í Eyjafirði. Kaupunum fylgja bátarnir Sólrún EA-151 og Særún EA-251 auk rúmlega 500 tonna kvóta, þar af um 370 tonn í þorski. Með því er bundinn endi á 63 ára útgerðarsögu Sólrúnar.

Þetta staðfestir Pétur Sigurðsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Sólrúnar, í samtali við 200 mílur. Hann segir rekstrarumhverfi smærri útgerða sem ekki reka landvinnslu fjandsamlegt og gagnrýnir stefnu nýrrar ríkisstjórnar sem hann segir vilja samþjöppun í sjávarútvegi svo hægt sé að skattleggja útgerðir enn meira.

Staðan hafi verið orðin þannig að ekki gæti talist fýsilegt að halda rekstrinum áfram. Bendir hann meðal annars á hækkun veiðigjalda síðustu ár og boðaða hækkun þeirra, kvótaskerðingu síðustu ára, hugmyndir um að leggja af byggðakvóta og veita strandveiðum þær heimildir, aukna vaxtabyrði og skort á umbótum á höfninni á Árskógssandi síðustu 30 ár.

Sólrún EA á siglingu. Báturinn hefur verið seldur GPG.
Sólrún EA á siglingu. Báturinn hefur verið seldur GPG. Ljósmynd/Sindri Swan

„Nú er búið að skrifa undir og ganga frá þessu, bátarnir tveir farnir héðan og búið að afhenda fyrirtækið til GPG á Húsavík,“ segir Pétur sem viðurkennir að um sé að ræða mikil kaflaskil fyrir hann sjálfan og meðeigendur fyrirtækisins sem allir eru bundnir fjölskylduböndum.

„Þetta voru bara svo margir þættir sem þrýstu á að ef við ætluðum að halda áfram rekstri yrðum við að gjörbreyta og skera mikið niður. Þá stóðum við bara frammi fyrir því, komin á ákveðin aldur, á maður að fara að standa í því að reyna að aðlaga reksturinn að auknum kröfum stjórnmálamanna eða einfaldlega að hætta og snúa sér að öðru.“

Sólrún ehf. var stofnað 1961 af föður og föðurbróður Péturs, þeim Sigurði og Alfreð Konráðssynum, auk afa hans Konráði Sigurðssyni. Gerðu þeir fyrst út 12 tonna dekkbát frá Árskógssandi sem smíðaður var af Kristjáni Nóa Kristjánssyni á Akureyri.

Vert er að geta þess að fyrirtækið voru frumkvöðlar í sölu hvalkjöts til Japans á sínum tíma og mátti lesa um það í viðtali við Sigurð Konráðsson í desember 2023.

Allir hlutir taka enda

„1971 er fyrirtækið gert að hlutafélagi og þá koma inn nýir hluthafar. Í kringum 78 verður svo aftur breyting á hluthafahópnum og 85 hætta hrefnuveiðarnar og þá hættir yngri bróðir pabba í fyrirtækinu og afi og amma. Svo er fyrirtækið rekið í svipuðu formi, en núverandi hluthafar koma inn 2006 og mamma og pabbi fara út 2014. Þannig að þetta er búið að fara í gegnum ýmsar breytingar á leiðinni,“ rifjar Pétur upp.

Spurður hvernig sé að selja fyrirtæki sem er jafn samofið fjölskyldunni og Sólrún, svarar hann: „Það er ekkert einfalt. Auðvitað er það þannig með alla hluti að þeir taka enda einhvern tímann, en það eru margar tilfinningar sem brjótast hjá fólki.“

Það er samt létt yfir Pétri. „Við Óli bróðir fórum út á bryggju í gær, vorum eitthvað að brasa í bátunum. Í gær var fimm til tíu stiga frost og norðan golukaldi. Þeir voru þarna að fara á sjó á Sæþóri EA og Óli sagðist nú ekkert vera að öfunda þá,“ segir hann og skellir upp úr.

Pétur með föður sínum Sigurði á sjóstangaveiðimóti í Grímsey. Fjölskyldan …
Pétur með föður sínum Sigurði á sjóstangaveiðimóti í Grímsey. Fjölskyldan hefur rekið útgerð í 63 ár.

Veiðigjöld hækkað mikið

En hvað varð til þess að ákveðið var að selja?

„Stærsti hlutinn er einfaldlega sá að þrengd hafa verið skilyrði til reksturs í þessu formi, útgerðar án vinnslu. Fjórir af sex í eigendahópnum erum komin um og yfir sextugt og fólki lýst bara ekki á horfurnar í greininni fyrir smærri útgerðir.“

Hann bendir meðal annars á hækkandi veiðigjöld undanfarin ár.

„Veiðigjöld í þorski eru í dag 26,66 krónur og ýsu 22,28. Það hafa legið fyrir stjórnarskipti lengi, þeir sem fylgjast með umræðu og öðru hafa séð að óbreytt stjórn yrði ekki til staðar. Þeir sem voru líklegastir til að vera í stjórn hafa úttalað sig um það að þeir telji það þurfa að innheimta sanngjörn veiðigjöld, hvað sem það þýðir. Í allri skilgreiningu í þeirra huga þýðir það að það eigi að hækka þau og við vitum ekki hvort talað sé um tvöföldun eða þreföldun.“

Pétur útskýrir að tæplega 27 króna veiðigjald á hvert kíló af lönduðum þorski sé um 5% af þeim 500 krónum sem fást fyrir fiskinn á markaði. Allur fiskur er þó ekki eins og verður hlutfallið því hærra fyrir þann þorsk sem nær ekki hæsta verði.

„Ýsan er í 22,28 krónum og ef maður landar ýsu er maður að borga yfir 10% af aflaverðmæti í veiðigjald. Ufsinn og karfi er 12 krónur og skarkoli 40 krónur. Við komum með allan afla í land og löndum þó ekki mikið af skarkola með þessum veiðarfærum sem við erum að nota, eigi að síður komum við með einn og einn fisk. Meðalverð sem við fengum fyrir skarkola síðastliðið haust var 240 krónur og veiðigjaldið er 40 krónur, sem sagt 20%.“

Boðuð hækkun setur strik í reikninginn

Veiðigjöld eru þó ekki það eina sem útgerðin greiðir til samfélagsins því við þau bætast hafnargjöld, tekjuskattur, launatengd gjöld og fleira sem fellur til við slíkan rekstur.

„Þegar þú dregur fisk úr sjó og selur á markaði fer um 60 til 65% af verðmætinu í launakostnað, tryggingagjald, gjöld vegna sölunnar, hafnargjöld og allt þetta. Raunverulega eru eftir einhver 35 til 40% sem eru eftir hjá fyrirtækinu til rekstrar og fjárfestingar. Ef veiðigjöldin eru að meðaltali fimm til tíu prósent þá er það tekið af þessum 35 til 40%. Þetta eru á bilinu tólf til fimmtán prósent af því sem eftir stendur. Ef veiðigjöldin tvöfaldast eða þrefaldast er það hátt í helmingur af því sem við höfum í dag til rekstrar. Það bara gengur ekki upp.“

Pétur segir aðeins hafa verið einn valkostur í stöðunni ef ákveðið væri að halda áfram rekstri og það væri að reyna að minnka launakostnað. „Við erum bara að gera upp við okkar sjómenn og okkur sjálf sem eigendur á grundvelli kjarasamningsbundinna launa. Það yrði sem sagt eini kosturinn í stöðunni í fyrirtæki eins og okkar að vinna fyrir minni laun en kjarasamningar gera ráð fyrir.“

Áhyggjur af byggðakvóta

Það eru margir samverkandi þættir sem þrengja að rekstrinum að sögn Péturs og hefur skerðing kvóta síðustu ár haft veruleg áhrif, má nefna í því samhengi að þorskkvótinn hefur minnkað um rúmlega fimmtung frá fiskveiðiárinu 2019/2020 til yfirstandandi fiskveiðiárs, 2024/2025.

„Við höfum verið svo gæfusöm að við höfum fengið hér byggðakvóta til að geta haldið rekstur lengur áfram en annars hefði verið,“ útskýrir hann.

„Það liggur hins vegar alveg fyrir að það hefur verið umræða hjá stjórnmálamönnum að leggja niður byggðakvótann og færa heimildirnar til strandveiða. Það var ein af þessum stóru breytum sem hafði áhrif á það hvort við vildum halda áfram eða ekki. Við vorum með tvo báta í útgerð og annar þeirra var gerður út af stærstum hluta vegna veiðiheimilda sem komu til í gegnum byggðakvóta.“

Áhöfnin á Sólrúnu EA náði vænum þorski 2021. Var hann …
Áhöfnin á Sólrúnu EA náði vænum þorski 2021. Var hann heil 51 kíló við vigtun. Ljósmynd/Sindri Swan

Hann segir alveg ljóst að einhverstaðar þurfi að sækja veiðiheimildir ef auka á afla sem strandveiðibátar eiga að geta veitt.

„Það er ekkert gaman fyrir aðila sem kaupa af okkur að það sé tilkynnt að það eigi að nánast tvöfalda strandveiðar. Mín skoðun er sú, og get ég stutt það með rökum, að það þurfi um 20 til 25 þúsund tonn af þorski í strandveiðarnar svo að hægt sé að standa við þessi loforð sem ríkisstjórnin er búin að gefa.“

Pétur bendir á að veiðar voru stöðvaðar síðastliðið sumar 12. júlí eftir að strandveiðibátarnir voru búnir að veiða 12 þúsund tonn. „Það er alveg vitað mál að ef þú gætir gengið að því að strandveiðar yrðu 48 dagar myndi fjölga á strandveiðum.“

Fjandsamlegt umhverfi

Pétur kveðst ekki hafa fyrir fimm eða tíu árum séð fyrir sér að hann myndi ásamt fjölskyldu selja fyrirtækið og hætta í útgerð á þessum tímapunkti.

„En umhverfið er fjandsamlegt fyrir svona fyrirtæki. Svo er það bara yfirlýst stefna núverandi ríkisstjórnar að auka álögur á þessa aðila sem í þessu standa og þjappa saman veiðunum til að geta skattlagt þá meira. Það er bara stefnan þó þau segi allt annað.“

Salan á útgerðinni er ekkert einsdæmi að sögn Péturs. „Þetta er þróun sem er að gerast um allt land, að þessar minni útgerðir með heimildir eru að sogast upp af útgerðum með vinnslur. Þeir aðilar hafa haft mun breiðari tekjugrunn til að greiða veiðigjöld með því að fá sinn hlut úr fiskverkuninni. Þeir hafa einnig möguleika til að gera upp við sjómenn á allt öðrum forsendum.“

Særún EA er komin til Húsavíkur.
Særún EA er komin til Húsavíkur. mbl.is/Hafþór

Vísar hann til þess að félög sem reka útgerð og vinnslu geta gert upp við sjómenn á grundvelli viðmiðunarverðs Verðlagsstofu skiptaverðs, svokallað verðlagsstofuverð. Umrætt verð er lagt til grundvallar launagreiðslna til áhafnar.

„Þeir sem eru eingöngu með útgerð þurfa að greiða öll gjöld og þann kostnað sem er aflaverðmætistengdur meðan til dæmis stærri útgerðir sem landa hjá sjálfum sér geta selt sjálfum sér fisk á verðlagsstofuverði sem er eitt til tvö hundruð krónum lægri.“

Rangt verðlagsstofuverð

Pétur fullyrðir að verðlagsstofuverðið sé ekki í takti við yfirlýsta stefnu um að vera 75% af markaðsverði á innlendum markaði. „Þriggja kílóa óslægður þorskur sem seldur er á verðlagsstofuverði fær kannski 300 krónur á kíló en á markaði fær hann sjaldan undir 500 krónur. Þá er verðlagsstofuverðið ekki nema 60%.“

Áskoranir smærri útgerða eru af mörgum toga og segir Pétur að enginn sé til í að kaupa fisk án þess að hann fari gegnum markað þó svo að salan hafi ekki farið fram hjá markaðnum.

„Það er til þess að kaupandinn losni við allt stússið að fara í gegnum innheimtu og svo framvegis. Við vorum til dæmis, þegar við seldum fisk sem við veiddum á grundvelli byggðakvóta, að selja Samherja og þurfti allur fiskur að fara í gegnum markað. Það kostar pening að selja í gegnum markað og við borgum hann.“

Slakir innviðir kosta

Auk fyrrnefndra atriða hefur sjávarútvegurinn rétt eins og öll fyrirtæki landsins þurft að glíma við háa vexti.

„Það verður ekki hjá því komist að fyrirtæki sem eru með veiðiheimildir sem þau hafa keypt til sín að þau skuldi einhverjar fjárhæðir. Vextir hafa stórhækkað, hvort sem það er af innlendum eða erlendum lánum.“

Þá hefur útgerðin einnig þurft að glíma við slaka innviði á Árskógssandi.

„Hafnaraðstæður hafa ekki, þó við höfum lagt á það áherslu, orðið betri. Hafnarbætur hafa ekki verið gerðar í hátt í 30 ár. Við höfum fyrir vikið þurft að fara með bátanna til Dalvíkur til að geyma þá ef það er tveggja þriggja daga landlega svo maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þeir skemmist í höfninni. Við höfum þurft að eyða peningum á hverju einasta ári í viðgerðir ábátunum vegna hafnaraðstöðunnar.“

Sólrún ehf. frmaleiddu um árabil saltfisk, en fiskverkun var hætt …
Sólrún ehf. frmaleiddu um árabil saltfisk, en fiskverkun var hætt á Árskógssandi 2006. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Þyngri róður eftir sem árin líða

Beðinn um að fara yfir það hve lengi hann hafi starfað í greininni svarar hann: „Við vorum aðeins að fara yfir þetta við hjónin – tímann frá því að við Óli byrjuðum að vinna í fyrirtækinu. Við ­byrjuðum á sama ári en hann aðeins fyrr á árinu – við vorum ekki alveg viss hvort þetta var 76 eða 77. Þetta er orðið hátt í fimmtíu ár. Menn finna það alveg hjá sér að þeir geta hugsað sér að fara að taka því aðeins rólega.“

„Miðað við aðstæður var alveg ljóst að ef ákvæðið væri að halda áfram rekstri að ekki væri í boði að taka því eitthvað rólega, enda rekstrarumhverfið sífellt meira krefjandi. Hin sem eru í þessu eru kannski búin að vinna styttra en þau eru búin að vera í þessu stanslaust í tuttugu til þrjátíu ár og Svavar bróðir ábyggilega í um fjörtíu ár.“

Var alveg útséð að þið gætuð haldið áfram?

„Allt eru þetta áskoranir sem við hugsanlega gætum tekist á við, en þegar maður er búinn að takast á við það lengi þá þyngist róðurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 6.1.25 598,84 kr/kg
Þorskur, slægður 6.1.25 659,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 6.1.25 408,73 kr/kg
Ýsa, slægð 6.1.25 430,37 kr/kg
Ufsi, óslægður 6.1.25 261,56 kr/kg
Ufsi, slægður 6.1.25 324,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 6.1.25 232,22 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

6.1.25 Tryggvi Eðvarðs SH 2 Lína
Þorskur 12.121 kg
Ýsa 1.039 kg
Steinbítur 17 kg
Sandkoli 4 kg
Karfi 1 kg
Samtals 13.182 kg
6.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Ýsa 4.693 kg
Þorskur 199 kg
Keila 77 kg
Hlýri 77 kg
Langa 31 kg
Steinbítur 24 kg
Karfi 4 kg
Samtals 5.105 kg
6.1.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Ýsa 5.739 kg
Þorskur 504 kg
Keila 162 kg
Hlýri 74 kg
Steinbítur 22 kg
Langa 15 kg
Samtals 6.516 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 6.1.25 598,84 kr/kg
Þorskur, slægður 6.1.25 659,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 6.1.25 408,73 kr/kg
Ýsa, slægð 6.1.25 430,37 kr/kg
Ufsi, óslægður 6.1.25 261,56 kr/kg
Ufsi, slægður 6.1.25 324,16 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 6.1.25 232,22 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

6.1.25 Tryggvi Eðvarðs SH 2 Lína
Þorskur 12.121 kg
Ýsa 1.039 kg
Steinbítur 17 kg
Sandkoli 4 kg
Karfi 1 kg
Samtals 13.182 kg
6.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Ýsa 4.693 kg
Þorskur 199 kg
Keila 77 kg
Hlýri 77 kg
Langa 31 kg
Steinbítur 24 kg
Karfi 4 kg
Samtals 5.105 kg
6.1.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Ýsa 5.739 kg
Þorskur 504 kg
Keila 162 kg
Hlýri 74 kg
Steinbítur 22 kg
Langa 15 kg
Samtals 6.516 kg

Skoða allar landanir »