Þegar rýnt er í löndunartölur Fiskistofu sést að á síðasta ári jókst landaður botnfiskafli í mörgum höfnum á landinu, þó hvergi meira en í Hafnarfirði þar sem bættust við rúm tíu þúsund tonn og varð bærinn þriðja stærsta löndunarhöfn botnfisks á síðasta ári, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Ekki verður annað séð en að stóran hluta af þessari þróun megi rekja til áhrifa eldgosa og jarðhræringa á Reykjanesi með tilheyrandi rýmingu og lokunum í Grindavík. Þar var á síðasta ári aðeins landað rúmlega 16 þúsund tonnum sem er um það bil helmingi minna aflamagn en árið 2023, en þá var Grindavík næststærsta löndunarhöfn botnfiskafla.
Mikillar aukningar í lönduðum botnfiskafla gætti einnig í Reykjavík þar sem í fyrra var landað 65.579 tonnum af botnfiski, sem er rúmlega sjö þúsund tonna aukning frá árinu á undan.
53% aflans í fimm höfnum
Afli íslenska flotans var á síðasta ári rúmlega milljón tonn en árið á undan var heildaraflinn tæplega 1,4 milljónir tonna. Munar þar aðallega um 325 þúsund tonna loðnuvertíð veturinn 2023 en ekki var veidd loðna á síðasta ári.
Mestum afla var landað í Neskaupstað og næstmestum afla í Vestmannaeyjum. Á eftir fylgir Vopnafjörður, Eskifjörður og svo Reykjavík. Athygli vekur að í þessum fimm höfnum þar sem mestum afla var landað í fyrra var samtals landað 539 þúsund tonnum, eða um 53% heildaraflans. Vert er að geta þess að uppsjávaraflinn vegur þungt í þessum samanburði og var hann í fyrra var 545 þúsund tonn, en aflanum var aðeins landað í ellefu höfnum hér á landi.
Vekur sérstaka athygli að Reykhólar ná á lista yfir helstu löndunarhafnir landsins, en þar er landað stórþara. Var stórþaraflinn sem þar var borinn að bryggju rúm 19 þúsund tonn.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.