Fiskkaup hefur gengið frá samkomulagi um kaup á útgerðarfélaginu Aðalbjörg RE-5 ehf. sem gerir út samnefndan dragnóta- og netabát sem smíðaður var af Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1987; fylgir bátnum rúmlega 267 þorskígildistonna kvóti.
Ásbjörn Jónsson framkvæmdastjóri Fiskkaupa segir í samtali við 200 mílur að til standi að gera bátinn út í óbreyttri mynd. Markmiðið með kaupunum hafi verið að tryggja vinnslunni aukið hráefni, að sögn hans.
„Stefnan er að reyna að vinna meiri þorsk sem við erum búin að afla. Það er alltaf sama vesenið með kvóta,“ útskýrir hann og játar að vinnsla Fiskkaupa hafi meiri afkastagetu en fæst afli. „Það vantar fisk.“
Með kaupunum á Aðalbjörgu fylgir 312,9 tonna heildarkvóti, þar af 93,5 tonn í þorski, 37 tonn í ýsu, 108,5 tonn í skarkola. Auk þess er 36 tonna langlúrukvóti, 11,5 tonn í þykkvalúru, tæp níu tonn í sandkola og nokkur tonn í öðrum tegundum.
Spurður um horfurnar á yfirstandandi fiskveiðiári segir Ásbjörn að bæði séu merki um neikvæða og jákvæða þróun.
„Ég er ekkert allt of bjartsýnn á þetta ár, þetta var nú ekkert alltof gott ár í fyrra. Það er margt sem hefur breyst, það er meðal annars búið að skerða grálúðukvótann sem við stólum mikið á. Samt hefur verð hækkað, verð á mörkuðum eru góð,“ útskýrir hann og bendir á að verð á fiskmörkuðum á Íslandi hafi líka hækkað sem eykur hráefniskostnað vinnslunnar.
Fiskkaup fékk afhent nýtt skip árið 2022, Kristrúnu RE-177, sem smíðað hafði verið 2001 og gert út frá Úrúgvæ. Spurður hvort útgerðin hafi nægan kvóta til að halda skipinu úti allt árið svarar Ásbjörn: „Hún var með nægan kvóta í fyrra en svo hefur grálúðukvótinn verið skorinn niður um þriðjung [frá fiskveiðiárinu 2022/2023] og við erum ekki búin að fá nóg þetta árið.“
Vakin er athygli á því í umfjöllun Fiskifrétta um viðskiptin að Aðalbjörg RE er elsta starfandi útgerðarfélag Reykjavíkur. Það hafi verið stofnað 1932 og sé því orðið 93 ára.
„Útgerðarfélagið Aðalbjörg RE var stofnað í heimskreppunni miklu árið 1932 af feðgunum Sigurði Þorsteinssyni og Einari Sigurðssyni. Synir Einars og Sigurðar, Stefán og Guðbjartur, tóku við útgerðinni 1974 en síðustu árin hefur félagið verið í eigu Stefáns og Önnu Sigurbrandsdóttur, ekkju Guðbjarts. Skipstjóri Aðalbjargar RE 5 frá árinu 2002 er Sigtryggur Albertsson, tengdasonur Stefáns,“ segir í umfjölluninni.