Röst sjávarrannsóknasetur hefur ráðið til sín tvo nýa starfsmenn, þau Birki Bárðarson og Audriu Dennen, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Röst.
Birkir hefur um árabil verið sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og mun nú gegna starfi stjórnanda sjávarrannsókna hjá Röst.
„Birkir hefur til margra ára verið leiðandi sjávarlíffræðingur og fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun þar sem hann hefur m.a. stýrt mati á stærð loðnustofnsins og komið að annarri ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu fiskistofna,“ segir í tilkynningunni.
Hann lauk BSc gráðu í líffræði við Háskóla íslands árið 2001 og árið 2014 lauk hann MPhil gráðu í sjávarlíffræði við University of St Andrews. Birkir hefur mikla reynslu af líffræði- og hafrannsóknum með áherslu á sjálfbærni. Hann hefur til margra ára verið leiðandi sjávarlíffræðingur og fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun með sérþekkingu á stofnmati og vistfræði uppsjávar- og miðsjávarfiska. Hann hefur stýrt stofnmati loðnu og komið að ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu nytjastofna en auk þess hefur hann séð um utanumhald og samhæfingu fjölmargra rannsóknarverkefna þar að lútandi.
Audria er sérfræðingur í jarð- og haffræði, hún er bandarísk en búsett á Íslandi og hefur lokið meistaranámi í hafeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Fram kemur í tilkynningunni að hún hafi lært jarðfræði og haffræði við Háskólann í Hawaii áður en hún flutti til Íslands til að stunda MSc í hafeðlisfræði. Audria hefur sterkan bakgrunn í tæknistörfum, þar á meðal vísindaköfun, tækjabúnaði og vettvangsrannsóknum. Áður en hún kom til Rastar hefur hún að undanförnu tekið þátt í bæði alþjóðlegum og staðbundnum íslenskum rannsóknarverkefnum – eins og að vinna við hlið vísindamanna frá NOAA (hinni bandarísku Hafrannsóknastofnun) að US GO-SHIP verkefninu og halda áfram sögulegum rannsóknum á þörungum í Silfru og Þjóðgarðinum á Þingvöllum.
„Það er afar ánægjulegt að fá Birki og Audriu til liðs við okkur hjá Röst. Birkir hefur áratuga reynslu af hafrannsóknum og að halda utan um og stýra rannsóknarverkefnum og Audria er haffræðingur með góða reynslu af tæknistörfum og vettvangsrannsóknum. Ég hlakka til að vinna með þeim að því að skilja hvernig hafið getur aðstoðað okkur við að draga úr loftslagsbreytingum sem skiptir miklu máli, bæði í dag og fyrir komandi kynslóðir,“ er haft eftir Salome Hallfreðsdóttur framkvæmdastjóra Rastar í tilkynningunni.
Röst sjávarrannsóknarsetur er óhagnaðardrifið rannsóknarfélag sem hefur það hlutverk að stuðla að rannsóknum sem tengjast hafinu og loftslagsbreytingum. Röst er hluti af alþjóðlegu neti rannsóknastöðva undir hatti Carbon to Sea Initiative. Röst er dótturfélag íslenska loftslagsfyrirtækisins Transition Labs