Sett var nýtt útflutningsmet sjávarafurðir í Noregi í janúar síðastliðnum er fluttar voru út afurðir fyrir 15,3 milljarða norskra króna, jafnvirði 193,6 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða 14% aukningu útflutningsverðmæta frá janúar 2024, að því er fram kemur á vef útflutningsráðs sjávarafurða í Noregi (Norges Sjømatråd).
„Janúar einkenndist af aukningu í magni útflutts lax og traustri verðmætaaukningu í ákveðnum veiddum tegundum. Auk þess hefur norska krónan veikst bæði gagnvart dollar og evru miðað við janúar í fyrra. Miðað við verðmæti var þetta besti janúarmánuður fyrir útflutning norskra sjávarafurða frá upphafi,“ er haft eftir Christian Chramer, framkvæmdastjóra ráðsins.
Bandaríkin var mikilvægasti markaðurinn fyrir norskar sjávarafurðir í janúar og voru seldar afurðir þangað fyrir 1,5 milljarð norskra króna sem er 9,7% af heildarútflutningi mánaðarins. Jókst útflutningsverðmæti afurða til Bandaríkjanna í janúarmánuði um 41% milli ára.
„Með tímanum hafa Bandaríkin þróast í einn mikilvægasta einstaka markaðinn okkar. Bara í janúar seldum við lax fyrir rúman milljarð norskra króna til Bandaríkjanna, sem er nýtt verðmætamet. Það undirstrikar mikilvægi þess að hafa sem besta viðskiptasamninga, meðal annars við Bandaríkin,“ segir Chramer.
Vakin er athygli á því að þorskkvótinn var skertur um 25% milli áranna 2024 og 2025 og hefur norskum fiskiskipum ekki verið úthlutað minni þorskkvóti síðan 1991.
„Kvótaskerðingin er nauðsynleg til að tryggja sjálfbæran þorskstofn en hefur auðvitað líka áhrif á útflutning. Minni framboðsmagn hefur skilað sér í miklum verðvexti á skrei og öðrum þorskafurðum í janúar. Jafnframt sýnir það erfiða stöðu norska landbúnaðariðnaðarins, þar sem sífellt harðari barátta um hráefni til vinnslu í flök, saltfisk, smokkfisk og harðfisk,“ segir Chramer.
Óttast Norðmenn að Íslendingar verði leiðandi á mörkuðum fyrir þorskafurðir.
Útflutningur á ferskum þorskafurðum nam 3.317 tonnum í janúar sem er 5% minna magn en í sama mánuði í fyrra, en útflutningsverðmæti afurðanna jókst um 17% og endaði í 267 milljónum norskra króna. Helstu markaðir voru Danmörk, Holland og Lettland.
Þá mátti rekja 35% ferskra afurða til eldisþorsks.
Eins og fjallað hefur verið um á 200 mílum er verðmætasti þorskur Norðmanna vertíðarþorskur úr Barentshafi sem markaðsettur er undir nafninu „skrei“, en vertíðin stendur yfir frá janúar til apríl.
Aðeins 420 tonnum af skrei var flutt úr landi í janúar og var útflutningsverðmæti þeirra 45 milljónir norskra króna. Um er að ræða 30% minna magn en í janúar í fyrra, en verðhækkanir og veikari norsk króna vegur aðeins upp á móti samdrættinum og minnkaði útflutningsverðmætið aðeins um 9%.
Í mánuðinum voru helstu markaðir fyrir skrei Danmörk, Spánn og Svíþjóð.
Þá varð einnig mikill samdráttur í útflutningi frystra afurða og nam útflutningurinn 3.607 tonn sem er 52% minna magn en í janúar 2024. Dróst útflutningsverðmætið saman um 20% og endaði í 294 milljónum norskra króna.
„Mikill samdráttur í útflutningsmagni í janúar kemur ekki á óvart. Mikið óveður samhliða mikilli kvótaskerðingu hefur stuðlað að miklum samdrætti í lönduðum afla í janúar. Það hefur einnig haft áhrif á útflutningsmagnið,“ segir Eivind Hestvik Brækkan, sérfræðingur hjá útflutningsráðinu.