„Til að hindra frekari hnignun djúpkarfastofnsins við Ísland er nauðsynlegt að draga úr veiðum en ekki auka þær. Því má ná með því að fylgja ráðgjöf og reyna að draga sem mest úr meðafla djúpkarfa við aðrar veiðar, þá sérstaklega í gulllax- og grálúðuveiðum,“ segir í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þar er vakin athygli á slæmri stöðu djúpkarfastofnsins og greint frá því að hún muni áfram vera slæm á komandi árum þar sem nánast engin nýliðun sé að eiga sér stað.
Sérstaklega er vakin athygli á því að Bjarni Benediktsson, þáverandi matvælaráðherra og forsætisráðherra, hafi fyrir alþingiskosningar í nóvember síðastliðnum gefið út 3.800 tonna djúpkarfakvóta vegna fiskveiðiársins 2024/2025 þrátt fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um engar veiðar. Forveri Bjarna í stól matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fylgdi ráðgjöfinni þegar úthlutun aflamarks átti sér stað í aðdraganda fiskveiðiáramóta.
„Ástæða fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ekkert aflamark (0 tonna ráðgjöf) fiskveiðiárin 2023/2024 og 2024/2025 er slæmt ástand stofnsins sem er metinn undir varúðarmörkum og nýliðun síðustu 15 ár eða svo hefur verið lítil sem engin. Þetta er staðfest bæði með gögnum úr stofnmælingum og úr afla fiskiskipa,“ segir í færslu Hafrannsóknastofnunar.
Úthlutun djúpkarfakvótans þvert á ráðgjöf vísindamanna átti sér stað eftir að stjórnvöld fengu hvatningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Félagi skipstjórnarmanna. Þessir aðilar sem og Jón Gunnarsson, á þessum tíma aðstoðarmaður Bjarna í matvælaráðuneytinu, vísuðu til þess að djúpkarfinn væri óhjákvæmilegur meðafli í veiðum á grálúðu og gulllaxi.
Hafrannsóknastofnun bendir þó í færslu sinni nú að það séu, að mati stofnunarinnar, leiðir til að draga verulega úr djúpkarfa sem meðafla í þessum veiðum.
Þrátt fyrir að engar djúpkarfaveiðar voru leyfðar 2023 var landað um 3.400 tonnum af tegundinni, þá sem meðafli. Var aflinn annaðhvort skráður sem VS-afli, þar sem útgerð fær aðeins 20% ágóðan sem hún skiptir með sjómönnum og ríkissjóður fær 80%, eða aflanum landað í gegnum svokallaðar tegundatilfærslur þar sem kvóti í annarri tegund er nýtt.
„Almennt má segja að frekar lítil skörun sé á veiðum á djúpkarfa og grálúðu nema þá helst vestur af landinu á svokölluðu Hampiðjutorgi. Virðist hitastig vera mest ráðandi í því að aðskilja þessar tegundir þar sem grálúða heldur sig í mun kaldari sjó en djúpkarfi. Reglugerð um bann við veiðum með fiskibotnvörpu út af Norðvesturlandi með það markmið að draga úr líkum á meðafla djúpkarfa við veiðar á grálúðu tók gildi 11. október 2023 (reglugerð nr. 1097/2023). Var lokunarsvæðið afmarkað í samvinnu við skipstjórnarmenn,“ segir í færslunni.
Jafnframt segir að meiri skörun sé á veiðislóð gulllax og djúpkarfa. „Þó er erfitt að átta sig á hvort gulllax veiðist sem meðafli í djúpkarfaveiðum eða öfugt.“
Bendir Hafrannsóknastofnun á að einungir 40 til 60% af útgefnu aflamarki í gulllax hefur veiðst frá fiskveiðiárinu 2016/2017. „Á þessu tímabili hefur um 10–30% af aflamarki gulllax verið notað í tegundatilfærslu en hlutfallið hefur verið lægra undanfarin fimm fiskveiðiár. Jafnframt er hluti aflamarksins flutt á milli ára (10–20%). Þetta þýðir að um 20–40% aflamarks hvers fiskveiðiárs hefur ekki verið nýtt.“
„Til að geta stundað gulllaxaveiðar og um leið minnka meðafla djúpkarfa er frekari rannsókna þörf en ýmsar leiðir eru fyrir hendi. Í þessu samhengi má nefna að við Noreg er gulllax einkum veiddur með flotvörpu og er tiltölulega lítill meðafli í þeim veiðum. Einnig væri hægt að beina veiðum á gulllaxi á þau svæði þar sem lítið er af djúpkarfa eða beita skyndilokunum líkt og gert er við Noreg þar sem svæðum er lokað ef samanlagður meðafli karfa, ufsa og ýsu við gulllaxaveiðar er meiri en 1.000 kg í einu togi. Að lokum má nefna að hugsanlega væri hægt að útbúa veiðarfæri með skilju sem hleypir djúpkarfa úr trollinu.“
Í færslunni greinir Hafrannsóknastofnun ítarlega frá forsendum ráðgjafar um engar djúpkarfaveiðar og segir meðal annars um stofninn að ástand hans sé talið „mjög slæmt“.
Vísað er til þess að veiðiálag sé yfir kjörsókn, gátmörkum og varúðarmörkum og að stærð hrygningarstofns sé undir aðgerðarmörkum, gátmörkum og varúðarmörkum.
„Stofninn samanstendur einungis af eldri kynþroska fiski og engin nýliðun hefur átt sér stað í hart nær tvo áratugi. Allar veiðar munu leiða til enn frekari minnkunar á stofninum og þeim má einfaldlega líkja við námugröft sem ekki getur talist til sjálfbærrar nýtingar.“
Útskýrt er að sveiflur í nýliðun karfastofna séu mjög miklar og oft langt milli þess að sjáist sterkir árgangar. „Jafnframt eru karfategundir hægvaxta og seinkynþroska. Því er mikilvægt að veiðihlutfall sé lágt því þannig má draga úr sveiflum í veiðum og halda hrygningarstofni yfir varúðarmörkum. Djúpkarfastofninn við Ísland er metinn undir varúðarmörkum og að það eru orðin meira en 15 ár síðan vart var við þokkalega nýliðun í djúpkarfastofninum.“