Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, telur ástæðulaust að óttast auknar strandveiðar og segir í grein sem birt var í Morgunblaðinu um helgina frekar ástæðu til að fagna fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga í sumar.
Vísar Örn dómsdagsspám þeirra sem gagnrýna áform stjórnvalda á bug.
„Sjávarútvegsumræðan þessa dagana og svo oft áður snýst um smábáta. Forystumenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Félagi skipstjórnarmanna hafa varað stjórnvöld við því að auka veiðiheimildir til strandveiða og fara þannig gegn vilja 72,3% þjóðarinnar, “ skrifar hann.
Bendir hann á að því hafi verið haldið fram að með 48 veiðidögum munu strandveiðibátar tvöfalda hlut sinn í veiðum á bolfiski, landa um tuttugu þúsund tonnum ogbátar á veiðum verði þúsund.
Jafnframt sé haldið fram af andstæðingum áforma ríkisstjórnarinnar að afleiðingarnar verði meðal annarstapað aflaverðmæti fyrir þjóðarbúið á bilinu þrír til fjórir milljarðar og gerð verði krafa um sífellt stærri hlut aflaheimilda til strandveiða.
Strandveiðar takmörkunum háðar
„Látum ekki blekkjast,“ segir Örn um þessar spár og bendir á að strandveiðar sæta fjölmörgum takmörkunum sem gerir það að verkum að ekki þarf að tryggja veiðunum miklar aflaheimildir til að allir bátar fá 48 veiðidaga.
„Náttúruöflin bíta þá harðar en stærri skip, nánast ekki hægt að stunda handfæraveiðar hjá meginhluta bátana þegar hvítt er í öldu. Takmarkað veiðisvæði sem hægt er að renna fyrir fiski þar sem hver róður má ekki vara lengur en 14 klukkustundir frá því farið er úr höfn og komið til löndunar.“
„Dagarnir 48 deilast jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Þann 5. maí verður heimilt að fara í fyrsta róður. Leyfilegir dagar eru 4 í viku, mánudagur-fimmtudags, alls 15 í maí. Það verður því að telja afar ólíklegt að margir nái að fara í 12 róðra. Ónýttir dagar færast ekki milli mánaða,“ útskýrir hann.
Greinina má lesa í heild sinni hér.