Línu- og handfærabátur hefur verið sviptur strandveiðileyfi í eina viku fyrir að skila ekki aflaupplýsingum eins og lög gera ráð fyrir. Fiskistofa kveðst ekki geta tekið tillit til bilunar í tölvu og bruna í netbeini, því skipstjóra ber að sjá til þess að búnaðurinn sé í lagi áður en haldið er til veiða, að því er fram kom í umfjöllun sem birt var í blaði 200 mílna fyrr í mánuðinum.
Fiskistofa birti nýverið ákvörðun sína um að svipta línu- og handfærabátinn Birtu BA-72 leyfi til strandveiða í eina viku frá og með útgáfu næsta strandveiðileyfis. Báturinn, sem gerður er út af Kfo Útgerð ehf. á Tálknafirði, er sagður hafa í tuttugu og tveimur veiðiferðum síðastliðið sumar ekki sent aflaupplýsingar til vefþjónustu Fiskistofu áður en skipið lagði við bryggju.
Fram kemur í málsgögnum að skipstjóri bátsins hafi haldið til strandveiða átján sinnum á tímabilinu 28. maí til 16. júlí 2024. Ekki hafi Fiskistofu þó borist aflaupplýsingar áður en skipinu var lagt að bryggju líkt og lög gera ráð fyrir. Bárust þó Fiskistofu 12. júlí stafrænar upplýsingar um afla í níu veiðiferðum sem áttu sér stað í júní.
Strandveiðileyfi Birtu féll niður 17. júlí, við stöðvun strandveiða, og var bátnum þá heimilt að halda til veiða á grundvelli almenns veiðileyfis. Fiskistofa greinir þó frá því að ekki hafi verið skilað aflaupplýsingum á réttum tíma fyrir fjórar veiðiferðir á grundvelli hins almenna veiðileyfis. Þar af voru tvær veiðiferðir farnar í júlí, ein í september og ein í október.
„Af þeim sökum er skipstjóri skipsins Birta BA-72 (2689) grunaður um að hafa brotið gegn lögum um stjórn fiskveiða, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um skráningu og skil aflaupplýsinga í framangreindum 22 veiðiferðum skipsins,“ segir í ákvörðun Fiskistofu.
Fram kemur einnig að Fiskistofa hafi áður leiðbeint útgerð skipsins um lög og reglur sem gilda um skil aflaupplýsinga með bréfi, dagsettu 28.5.2024, vegna veiðiferða 22. maí, 23. maí og 27. maí. Þá voru samskonar leiðbeiningar sendar útgerðinni 2022 vegna sjö veiðiferða það sumar.
„Með bréfi Fiskistofu, dags, 18.10. 2024, var málsaðila tilkynnt að málið hefði verið tekið til meðferðar, og að til greina kæmi að beita viðurlögum yrði niðurstaðan sú að um brot hefði verið að ræða. Fiskistofa veitti frest til að koma athugasemdum og sjónarmiðum á framfæri til 4.11. 2024. Sjónarmið málsaðila bárust með tölvupósti 24.10. 2024. Þar er tilgreint að vegna bilunar í tölvu og bruna á netbeini (e. router) hafi skipstjóra skipsins ekki tekist að senda aflaupplýsingar á tilsettum tíma.
Málsaðili upplýsti að vanskil aflaupplýsinga ættu ekki að koma fyrir aftur þar sem málsaðili kveðst hafa endurnýjað netbeini og kapla og til standi að fá nýjustu uppfærslu á hugbúnaði (trackwell) til skila á aflaupplýsingum til Fiskistofu. Fiskistofa sendi tölvupóst til málsaðila 7.11. 2024 til að gera betri grein fyrir lagagrundvelli málsins og veitti frest til 17.11. 2024 til að koma sjónarmiðum á framfæri ef þörf krefði. Engin frekari sjónarmið bárust,“ segir í málsgögnum.
Fiskistofa bendir á að það sé á ábyrgð skipstjóra að sjá til þess að búnaður sem nota á til að skila aflaupplýsingum sé í lagi áður en haldið er til veiða. Stofnunin getur því ekki tekið tillit til bilaðrar tölvu eða bruna í netbeini. Jafnframt ber að upplýsa Fiskistofu eins skjótt og auðið er komi upp bilun í hugbúnaði eða vefþjónustu, en engin slík tilkynning barst stofnuninni.
Telur Fiskistofa ljóst að með því að skrá ekki og skila ekki aflaupplýsingum til vefþjónustu Fiskistofu áður en skipinu var lagt að bryggju hafi verið brotið gegn lögum um stjórn fiskveiða.
„Að teknu tilliti til eðlis og umfang brotanna teljast þau ekki minniháttar og kemur því ekki til álita að áminna málsaðila vegna þeirra. Með hliðsjón af því að skráningu og skilum aflaupplýsinga skipsins var ábótavant í 18 strandveiðiferðum og 4 veiðiferðum skipsins á grundvelli almenns veiðileyfis telur Fiskistofa rétt að beina viðurlögum að leyfi skipsins til strandveiða,“ segir í ákvörðuninni.
Ákvörðunin hefur ítrekunaráhrif í tvö ár.