Clay Higgins, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Louisiana, hvetur Donald Trump forseta Bandaríkjanna til að leggja verndartolla á innflutt sjávarfang og nefnir í því samhengi sérstaklega rækjur og krabbadýr frá Kína, Ekvador, Indlandi, Indónesíu og Víetnam.
Í bréfi sem sent var Hvíta Húsinu fyrr í þessum mánuði segir hann innlendar útgerðir og framleiðendur glíma við erfiðar áskoranir vegna samkeppni við erlendan sjávarafurðaiðnað sem Higgins fullyrðir að sé mikið niðurgreiddur og stundi ólöglegt undirboð á Bandaríkjamarkaði.
„Þessir ranglátu viðskiptahættir knýja niður verð, trufla sanngjarnar markaðsaðstæður og ógna lífsviðurværi vinnusamra bandarískra sjávarafurðaframleiðenda. Án sterkrar og stöðugrar íhlutunar mun sjávarútvegurinn okkar vera viðkvæmur fyrir þessum ólöglegu viðskiptaaðferðum sem rýra samkeppni á markaði,” segir í bréfi þingmannsins.
Higgins hvatti Trump til að „nota öll tiltæk framfylgdartæki, svo sem að leggja á undirboðs- og jöfnunartolla, innleiða strangari prófunarreglur og grípa til afgerandi aðgerða, þar á meðal að innheimta allt að 100% tolla eða eyðileggja sendingar sem standast ekki bandaríska heilbrigðisstaðla, til að tryggja jafna samkeppnisstöðu framleiðenda. Innleiðing þessara aðgerða mun vernda samkeppnishæfni og heilleika heimamarkaðar okkar og hjálpa efnahag og menningu samfélagana við strandlengju okkar.”
Tugir milljarða króna
Ekki liggja fyrir frekari skilgreiningar á því hvernig umræddir tollar og verndaraðgerðir ættu að líta út og því óljóst hvort þessar aðgerðir myndu ná til Íslands, en þó nokkur útflutningur á íslensku sjávarfangi til Bandaríkjanna á sér stað á hverju ári.
Árið 2023 voru seld 32.499 tonn af sjávarafurðum til Bandaríkjanna að verðmæti 46,5 milljarða íslenskra króna. Á fyrstu ellefu mánuðum 2024 var útflutningsverðmæti sjávarafurða til Bandaríkjanna 44,3 milljarðar króna og var magnið 29.253 tonn.
Vegur eldislax þyngst í útflutningi til Bandaríkjanna en á eftir fylgja þorskafurðir, ýsuafurðir og lýsi.