Innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur haft lítil áhrif á vilja evrópskra vinnsla til að stunda viðskipti með rússneskt sjávarfang, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í gagnagrunni markaðseftirlitsstofnunar Evrópu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir (EUMOFA) má sjá að ríki Evrópusambandsins hafa frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar 2022 flutt inn að minnsta kosti 492.294 tonn af rússnesku sjávarfangi frá Rússlandi, þar af eru þorskafurðir 45,6% og afurðir úr alaskaufsa 42,5%. Stór hluti þessa afurða er fiskur sem er unninn í ríkjum Evrópusambandsins.
Verðmæti viðskiptanna var 2.189,3 milljónir evra, jafnvirði um 322 milljarða íslenskra króna, á tímabilinu mars 2022 til og með september 2024, ekki hafa verið birt nýrri gögn en það.
Helstu kaupendur rússneskra sjávarafurða á tímabilinu mars 2022 til og með september 2024 voru Hollendingar sem fluttu inn 142 þúsund tonn að verðmæti 693,5 milljónir evra. Á eftir fylgja Þjóðverjar með 96 þúsund tonn, svo Pólverjar með 77,9 þúsund tonn. Þá fluttu Frakkar inn tæplega 66 þúsund tonn af rússneskum sjávarafurðum á tímabilinu. Í þessum ríkjum eru ekki aðeins stórir markaðir fyrir afurðirnar heldur eru þar einnig stór fiskvinnslustarfsemi.
Vert er að geta þess að Evrópusambandsríkin kaupa einnig rússneskt fjávarfang í gegnum Kína. Hafa Kínverjar selt aðildarríkjum Evrópusambandsins um 350 þúsund tonn af alaskaufsa, en megnið af þessum fiski er talinn eiga uppruna sinn í rússlandi.
Fjallað var meðal annars um það á síðasta ári.
Undanfarið hafa Norðmenn sætt harðri gagnrýni af hálfu evrópskra útgerða og fiskframleiðenda fyrir innflutning sinn á rússneskum fiski til vinnslu þar í landi sem síðan er seldur á Evrópumarkaði.
Fyrsta janúar 2024 tóku gildi útflutningstollar á sjávarafurðir í Rússlandi til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu. Samhliða innleiddi Evrópusambandið 13% innflutningstoll á rússneskar sjávarafurðir sem lið í efnahagsaðgerðum gegn Rússlandi. Glufa hefur hins vegar verið fyrir rússneskt sjávarfang inn á Evrópumarkað í gegnum Noreg þar sem fiskveiðisamningar Norðmanna og Rússa heimila rússneskum skipum að landa afla í Noregi tollfrjálst, svo er heldur enginn tollur á afurðir sem fluttar eru frá Noregi til Evrópusambandsins.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.