Mikill óróleiki hefur einkennt heimsmálin undanfarin ár með tilheyrandi áhrifum á flæði vöru og þjónustu og viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Er sjávarútvegurinn þar engin undantekning, enda eru viðskipti með sjávarafurðir hnattrænar í eðli sínu. Íslensk fyrirtæki þurfa að vera vökul gagnvart þeim breytingum sem hafa átt sér stað og þeim sem koma skulu, ekki síst búa yfir þeim sveigjanleika sem fjölgun fríverslunarsamninga gefur.
Þetta kom fram í ítarlegri umfjöllun um þróun heimsmála í síðasta blaði 200 mílna.
Stjórnarráð Íslands tilkynnti í nóvember á síðasta ári að tekist hefði að lenda fríverslunarsamningi við Taíland. Var sérstaklega vakin athygli á því að „samningurinn tryggir meðal annars fullt tollfrelsi inn á Taílandsmarkað fyrir flök af laxi, þorsk, grálúðu og loðnuhrogn, vélbúnað til matvælaframleiðslu og stoðtæki.“
Í janúar síðastliðnum hélt Félag atvinnurekenda (FA) og Íslensk-taílenska viðskiptaráðið fund um hinn nýja fríverslunarsamning. Kom þar fram í máli Ragnars G. Kristjánssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, að „Taíland væri framtíðarmarkaður með um 70 milljónir íbúa, sem færi stækkandi og væri sá næststærsti innan ASEAN, Sambands Suðaustur-Asíuríkja. Taíland væri fjölbreytt og útflutningsmiðað hagkerfi og jafnframt með stóran þjónustugeira, þar sem ferðaþjónusta væri mikilvægust. Þá væri Taíland líklegt til að leika mikilvægt hlutverk ef framleiðsla færðist frá Kína til annarra ríkja í Asíu,“ að því er greint er frá á vef FA.
Þar er einnig vakin athygli á því að á fundinum hafi komið fram að líklegt sé að samningurinn leiði til þess að íslenskar sjávarafurðir, sem til þessa hafa verið unnar í Kína fyrir Japansmarkað, verði frekar fluttar til vinnslu í Taílandi þar sem Taíland hafi betri aðgang að Japan en Kína.
Slík þróun er ekki ósennileg og í takti við þróun síðustu ára. Tilkynnti t.a.m. japanska stórfyrirtækið Kyokuyo í febrúar á síðasta ári að það myndi halda áfram að stækka á alþjóðamarkaði en á sama tíma draga úr framleiðslu sinni í Kína.
Áherslan yrði framvegis á Suðaustur-Asíu og sérstaklega Víetnam og vísaði fyrirtækið til mikilvægis stöðugleika í rekstrarumhverfinu. Í yfirlýsingu á síðasta ári sagðist fyrirtækið með ákvörðun sinni um að auka áhersluna á Suðaustur-Asíu vilja „forðast samþjöppun vinnslustöðva í Kína“ þar sem „vandamál hafa komið í ljós“. Var vísað til truflana í birgðakeðjum og aukinnar getu til að tryggja stöðugt framboð til kaupenda með því að dreifa áhættu.
Lesa má umfjöllunina í heild sinni í febrúarblaði 200 mílna.