Fengi Ísland á sig háa tolla myndi það bæði spilla fyrir sjávarútveginum og skipaflutninga- og flugfélögunum, að því er segir í umfjöllun sem birt var í febrúarblaði 200 mílna.
Um allan heim er fólk á nálum yfir því að Donald Trump kunni að snarhækka tolla. Stutt er síðan hann hótaði Mexíkó og Kanada nýjum tollum, sem hann fékkst þó til að fresta gegn því að styrkja eftirlitið á landamærum þjóðanna. Tollar á kínverskar vörur hafa verið hækkaðir og Trump ýjað að því að röðin komi senn að Evrópu.
Gunnar Örlygsson er framkvæmdastjóri IceMar og segir hann ástandið í Washington kalla á að íslensk stjórnvöld sendi þangað sitt hæfasta samningafólk. Komi til þess að Trump leggi tolla á ESB – en ekki á EES-ríkin – myndi það setja íslenska seljendur í mjög sterka stöðu en verði Ísland líka fyrir barðinu á Trump-tollum myndi íslenskur sjávarútvegur þurfa að aðlagast hratt og væntanlega koma meira af vörum sínum til kaupenda í öðrum löndum.
IceMar var stofnað árið 2003, sinnir einkum Englandsmarkaði og Norður-Ameríkumarkaði og selur fyrst og fremst hvítfisk en þó líka eldisfisk í vaxandi mæli. Um 75% af þeim afurðum sem félagið selur eru fryst en 25% fersk og fara þær síðastnefndu allar með flugi inn á Norður-Ameríkumarkað. Vinnur IceMar náið með bandaríska móðurfélaginu Woocheen, sem árið 2022 eignaðist 60% hlut í fyrirtækinu og stundar umfangsmikinn rekstur á sviði veiða og vinnslu bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
Að færa áhersluna af ferska fiskinum yfir í fisk sem fluttur er til landsins frosinn og því næst fullverkaður eins og Gunnar hefur lýst myndi bæði gera vöruna verðmætari og lækka flutningskostnaðinn. „Við værum að flytja út alveg sama prótein nema að í stað þess að borga 350 kr. fyrir kílóið með flugi værum við að greiða 50-70 kr. fyrir flutninginn og það gefur auga leið hversu mikill ávinningur það væri að spara 250 kr. flutningskostnað á hvert kíló.“
Trump hefur sýnt það að hann skortir ekki samningsviljann þó svo að hann beiti óhefðbundnum aðferðum á vinaþjóðir Bandaríkjanna til að fá sínu framgengt. Gunnar segir að fiskurinn og heilsugildið sé eitt af þeim spilum sem íslensk stjórnvöld gætu lagt á borðið.
„Það vona ég að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir velji sitt hæfasta fólk og helst að íslenskir ráðamenn sýni núna frumkvæði og freisti þess að ræða við jafningja sína í Bandaríkjastjórn, og leggi bæði áherslu á fiskinn okkar og auðvitað líka þá staðreynd að staðsetning Íslands í Norður-Atlantshafi er mikilvæg fyrir varnir Bandaríkjanna. Held ég að við séum í dauðafæri, og ef við spilum rétt gæti okkur tekist að fá Bandaríkjamenn með okkur í ákveðna vegferð sem allir munu græða á.“
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í febrúarblaði 200 mílna.