Ríkjum sem setja takmarkanir á notkun útblásturshreinsibúnað skipa sem dælir menguðu skolvatni í sjóinn (e. Scrubber) hefur fjölgað ört og eru þau nú 46 en voru 37 þegar 200 mílur kortlögðu þau í maí á síðasta ári.
Frá þessum tíma hafa Danir, Svíar og Finnar ákveðið að banna notkun þessa búnaðar alfarið og sætir hann nokkrum takmörkunum í Noregi, en ekki liggja fyrir skýrar takmarkanir á notkun þessa búnaðar hér á landi.
Í maí verða liðin fimm ár frá því að Rannsóknarnefnd samgönguslysa beindi því til stjórnvalda að skoða hvort tilefni væri til þess að banna svokallaðan opin vothreinsibúnað við Íslandsstrendur. Tilmælin kom í kjölfar mikillar sótmengunar í Vestmannaeyjahöfn árið 2019 eftir að Lagarfoss sleppti skolvatni í höfninni.
Þá sagði Umhverfisstofnun í svari við fyrirspurn 200 mílna árið 2020 að það kynni að vera ástæða til að endurskoða ákvæði laga um hreinsibúnaðar. Bent var þó á að það væri Alþingis að setja lög og ráðherra að setja reglugerðir. Að því sem 200 mílur komast næst liggja ekki fyrir skýr áform um að taka fyrir notkun þessa búnaðar hér á landi.
Fimmtán ríki banna nú alfarið losun skolvatns innan landhelgi sinnar og taka gildi slík bönn gildi 1. júlí í Danmörku og Svíþjóð. Þá er losun skolvatns bannað innan þriggja sjómílna frá landi í Frakklandi og Belgíu.
Þá er bannað að losa skolvatns úr hreinsibúnaðinum í höfnum Króatíu, Portúgals, Rúmeníu, Keníu, Pakistans, Ísraels og á bresku eyjunni Bermúda.
Losun skolvatns er háð sérstöku leyfi frá stjórnvöldum á Kýpur en takmarkanir eru á innihaldi skolvatns sem losað er í sjó í Litháen, Eistlandi og Ástralíu.
Hreinsibúnaðurinn dælir inn sjó og úðar honum yfir útblástur sem skip mynda við brennslu eldsneytis og binda mengunarefnin í vökvann áður en útblæstri er sleppt í andrúmsloftið. Síðan er vökvanum með hinum mengandi efnum sleppt í sjóinn.
Allt frá því að ákveðið var að heimila notkun búnaðarins árið 2020 hefur verið þekkt að mengunin kunni að valda verulegum áhrifum á lífríki hafsins, sérstaklega á svæðum þar sem mengunin safnast saman.
Kom meðal annars fram í rannsókn Chalmers tækniháskólans í Gautaborg 2023 að það mætti líklega rekja meira en 90% af skaðlegum efnum, þar á meðal þrávirkum og krabbameinsvaldandi PAH-efnum, í höfnum Evrópu til losunar skolvatns úr þessum hreinsibúnaði.