Útgefið heildaraflamark í loðnu í ár var 8.589 tonn skv. ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar og varð hlutur íslenskra útgerða 4.435 tonn, eða tæp 52% af heildinni. Ástæða þess að hlutur Íslendinga varð ekki meiri en raun ber vitni er m.a. umframveiði á síðustu loðnuvertíð árið 2023, en þá nam útgefinn kvóti Íslands 329 þúsund tonnum. Kvótinn í ár er því einungis um 1,3% af kvóta síðustu loðnuvertíðar og munar um minna. En þarna kemur fleira til.
Í gildi er samningur á milli Íslands og Grænlands um skiptingu kvótans á milli ríkjanna í lögsögu Íslands, en þar er Ísland með 81% hlut sem þýðir að 6.957 tonn koma til Íslands af heildaraflamarkinu. Grænland er með 18% úr þessum potti sem gefur þeim 1.546 tonn. Ísland og Grænland hafa skilið eftir 1% handa Noregi af téðu aflamarki, en þar sem Norðmenn hafa ekki skrifað undir samkomulag þessa efnis skipta Ísland og Grænland með sér þeim 86 tonnum af loðnu sem þetta eina prósent hefði skilað Noregi, hefði samkomulagið verið undirritað af þeirra hálfu.
Ísland fékk af þeim sökum sín 81% af þessu eina prósenti Norðmanna, sem gefur þ.a.l. 70 tonn af loðnu til viðbótar. Heildaraflamark Íslands var því 7.027 tonn þegar hér var komið sögu. Grænlendingar fá síðan 16 tonn til viðbótar af norska prósentinu, sem gefur þeim heildaraflamark upp á 1.562 tonn.
En þar með er ekki öll sagan sögð.
Á síðustu loðnuvertíð veiddi Ísland umfram sinn kvóta sem nemur 1.915 tonnum. Þegar þannig háttar til ber að draga það sem umfram er veitt frá aflamarki næsta árs á eftir og lækkar íslenska aflamarkið þ.a.l. sem þessu nemur, fer úr áðurnefndum 7.027 tonnum í 5.112 tonn. Úr þeim potti fær Grænland 1.436 tonn og Noregur 479 tonn. Þessu til viðbótar dragast frá 429 tonn skv. tvíhliða samningi við Færeyinga. Endanlegt aflamark í loðnu sem kemur í hlut Íslands af áðurnefndu 8.589 tonna heildaraflamarki stendur því í 4.683 tonnum.
En þá er ríkið eftir, því að af áðurnefndum hlut, þ.e. af fyrrgreindum 4.683 tonnum, tekur ríkið til sín 5,3% sem leiðir til þess að í hlut íslenskra útgerða komu á endanum 4.435 tonn. Mögulegt er þó fyrir íslensku fyrirtækin að leysa til sín það aflamark sem 5,3% gefa, sem er 248 tonn, en gjalda verður þorsk í staðinn sem þá fer í byggðakvóta, strandveiðar og þ.h.
Á endanum skiptist síðan aflamarkið í loðnu þannig á milli ríkjanna að Ísland fær 4.435 tonn eins og áður gat, Grænland fær 2.998 tonn í sinn hlut og loks fá Norðmenn 479 tonn, en þar sem þeir hafa ekki undirgengist samkomulag um skiptingu loðnukvótans, geta þeir ekki nýtt sér sinn hlut.
Óljóst er hvað verður um 479 tonnin sem í hlut Norðmanna komu en þeir eiga ekki möguleika á að nýta sér, en verið er að skoða málið í matvælaráðuneytinu, eftir því sem næst verður komist.