Starfsemi er hafin hjá Kapp-Skaganum hf. á Akranesi sem á haustdögum keypti búnað og lausafé úr búi Skagans 3X sem varð gjaldþrota síðastliðið sumar. „Við sáum mikil tækfæri í því að stíga hér inn, enda á mörgu góðu að byggja. Þetta fellur líka vel að þeirri starfsemi sem við höfum verið með áður,“ segir Ólafur Karl Sigurðarson framkvæmdastjóri. Endurreist starfsemi var kynnt fjárfestum, fjölmiðlum og fleirum nú í vikunni.
Kapp ehf. er gamalgróið fyrirtæki hvar til staðar er mikil þekking og reynsla í framleiðslu á kælibúnaði fyrir sjávarútveginn. Þjónustuþátturinn í starfseminni er einnig stór, enda eru tæki sem Kapp framleiðir í notkun í fjölda landa. Krapavélar hjá því framleiddar eru alls um 1.000 og í notkun mjög víða.
„Við bjóðum alhliða kælilausnir fyrir matvælaframleiðslu, en hvað sjávarútveg varðar má segja að við séum með allt sem til þarf í kælikeðjunni til að stýra hitastigi hráefnis. Alveg frá veiðum til verslunar,“ segir Ólafur Karl. Hann getur einnig að í raun sé Kapp orðið mjög alhliða tæknifyrirtæki þar sem framleiðsla, sala og þjónustu á búnaði og fleiru því sem sjávarútvegur þarfnast sé í aðalhlutverki. Vöruframboðið sé afar breitt.
Framleiðslan hjá Kapp-Skaganum verður með svipuðu móti og var hjá fyrirrennara þess. Þar má nefna til dæmis laus- og plötufrysta, forkæla, undirkælingu, uppþíðingu og fleira. Einnig eru smíðuð og þjónustuð tæki fyrir innmötun og pökkun afurða. Í smiðjunni á Skaganum er allur búnaður hinn besti: góð tæki til framleiðslu og valinn maður í hverju rúmi.
„Núna í upphafi munum við mest og helst leggja okkur eftir framleiðslu á laus- og plötufrystum. Við greinum að einmitt nú hefur myndast þörf á endurnýjun á ýmsum þeim búnaði sem Skaginn 3X var með. Því þarf að sinna og svo leggst alltaf eitthvað fleira til hér, þar sem 35 manns starfa. Miðað við stöðu og pantanir er líklegt að fjölga þurfi í þeim hópi á næstunni, í takt við verkefnastöðu. Við einskorðum okkur ekki heldur við sjávarútveginn. Margar okkar lausnir henta einnig fyrir kjöt- og kjúklingavinnslu og þangað munum við einnig sækja,“ segir Ólafur Karl.
Kapp ehf. velti á síðasta ári um tveimur milljörðum króna. Nú bætast Kapp-Skaginn og Kami Tech í Seattle í Bandaríkjunum við samstæðuna og slíkt gefur tækifæri til viðgangs. „Við erum með metnaðarfull vaxtarmarkmið á næstu 2-3 árum,“ segir framkvæmdastjórinn.
„Að starfsemi hér sé hafin að nýju er mikið lán,“ segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi. Þegar best lét voru starfsmenn Skagans 3X um 130 og því var mikið í húfi að endurreisn starfseminnar tækist. Þar komu margir að málum; heimafólk tók frumkvæði og öllu munaði að fá Kapp með í verkefnið,“ segir Haraldur. Nú sé starfsemin orðin hluti af fyrirtækjafjölskyldu, sem svo megi kalla, og í því felist styrkur.
„Akranes er ekki útgerðarbær með þeim hætti sem áður var, en sjávarútvegur skiptir sem fyrr miklu máli,“ segir Haraldur. Hann nefnir að í bænum séu öflug fyrirtæki í nýsköpun og þjónustu við greinina, svo sem Kapp-Skaginn. Einnig séu á staðnum önnur fyrirtæki sem framleiði ýmsar afurðir úr sjávarfangi. Þar má nefna Akraborg ehf. sem er í lifrarvinnslu og framleiðslu á gæludýrafóðri og Vignir G. Jónsson ehf., sérhæft fyrirtæki í hrognavinnslu.