Eva Dögg Jóhannesdóttir, sjávarlíffræðingur og ráðgjafi hjá Bláum Akri, sagði í viðtali í febrúarblaði 200 mílna mikla óvissu um það í hve miklum mæli sjókvíaeldi hafi áhrif á lúsaálag villtra laxfiska. Hún telur mikilvægt að lokið verði við gerð lúsadreifingarlíkans og að komið verði á fullfjármagnaðri vöktun villtra laxa.
„Það eru allir sammála um að það þurfi að fylgjast með fjölgun lúsa og það þarf að vakta villtu stofnana líka, alveg eins og eldislaxinn, og hafa hemil á þessu. Það er fyrirtækjunum fyrir bestu að halda þessu í skefjum svo að lúsin valdi ekki afföllum,“ segir hún
Skiptar skoðanir eru um það í hve miklum mæli sjókvíaeldi stuðli að aukningu lúsaálags á villtum fiskum. „Sumir eru alveg sannfærðir um það og vísa til þess að með aukinni framleiðslu sníkjudýra eykst hætta á að lúsin rati í villta fiskinn, draga þá ályktun að það hljóti að vera tenging þar á milli. Hins vegar er það ekki endilega tilfellið,“ segir Eva Dögg og bendir á að á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi hefur verið bannað í Bresku-Kólumbíu í Kanada hefur lús á villtum fiskum ekki minnkað.
Spurningin um áhrif sjókvíaeldis á villta stofna með tilliti til lúsasmits er því flóknari en virðist í fyrstu, útskýrir hún.
Laxa- og fiskilús er sníkjudýr sem sest á fiska og nærist á húð, blóði og slími þeirra. Getur það haft alvarleg áhrif á heilsufar þeirra fiska sem verða lúsinni að bráð.
Spurð um smitleiðirnar vekur Eva Dögg athygli á því að lúsin varð til í náttúrunni, þó að eldisstöðvar þar sem smit kemur upp geti skapað góða gróðrarstíu fyrir hana.
„Rannsóknir Færeyinga hafa sýnt fram á að fiskeldið er fyrst og fremst að smita sjálft sig. Lýsnar sem verða til á tilteknu eldissvæði eru líklegastar til að smita innan svæðis eða fara yfir á næsta eldissvæði, því þar er sterkasta lyktin af laxinum og mesti fjöldinn. Það er miklu einfaldara fyrir sníkjudýr að fara bara á næsta fisk frekar en að fljóta um hafið í leit að náttúrulegum hýsli. Þá er ég ekki að segja að það gerist ekki að lús fari af eldissvæði á villta fiska, en það hefur sýnt sig að helsta smitleiðin sé innan og milli eldissvæða.“
Hún segir því ljóst að mikilvægasta aðgerðin gegn lúsasmiti sé hvíld eldissvæða, eftir þriggja mánaða hvíld er búið að slíta lífsferil lúsarinnar.
„Hins vegar, ef verið er að hvíla eldissvæði sem er í straumstefnu frá öðru svæði þar sem er lús næst lítill árangur. Þannig að það þarf stærri skilgreind og rannsökuð smitvarnasvæði. Okkur vantar lúsadreifingarlíkan, en mér skilst að Hafrannsóknastofnun sé að vinna slíkt. Vonandi kemur það fyrr en síðar svo að við getum skilið betur hvernig lús dreifist. Færeyingar eru með slíkt líkan þannig að maður getur séð nákvæmlega hvernig lirfur dreifast ef lús greinist.“
Eva Dögg Rifjar upp að á síðasta ári hafi hér á landi verið byrjað að dæla fiski úr kvíum upp í brunnbát og meðhöndla hann með volgu vatni og þrýstingi.
„Þá er lúsin beinlínis spúluð af honum og svo síuð frá og henni fargað, en fiskurinn fer aftur út í kví. Þetta er mjög kostnaðarsöm aðgerð og mikil vinna. Það hafa eflaust allir Vestfirðingar séð brunnbátinn Ronju Strand sigla milli fjarða yfir sumarið og fram á haust.“
Spurð hvað þurfi sérstaklega að huga að í framhaldinu svarar hún:
„Það er búið að vinna rosalega mikla og góða vinnu frá því að eldisfyrirtækin urðu fyrir miklu áfalli 2023. Síðan þá hafa eldisfyrirtækin fyrir vestan unnið með dýralæknum og líffræðingum að því að minnka lúsaálagið. Þess vegna kom meðal annars þessi brunnbátur í fyrra og gekk bara töluvert vel, vonandi enn betur í ár. Það þarf að halda þessu samstarfi áfram. Það er líka ótrúlega mikilvægt að koma á almennilegri vöktun á villta fiskinum, hvernig sem það verður gert, og að hún verði ekki bundin óvissu um fjármögnun ár eftir ár.“
Viðtalið við Evu Dögg má lesa í heild í febrúarblaði 200 mílna.