Fannst hún strax hluti af samfélaginu

Ljósmynd/Roksana Szerlowska

Nýjasti stjórnandinn hjá Arctic Fish kom fyrst til landsins sem au pair, fyrir hálfgerða tilviljun. Magdalena Tatala er afskaplega ánægð á Þingeyri.

Vafalítið munu lesendur hafa gaman af að heyra sögu Magdalenu Tatala, en 200 mílur greindu frá því í janúar að hún hefði tekið við stöðu forstöðumanns fóðurmiðstöðvar Arctic Fish á Vestfjörðum.

Magdalena fæddist í Póllandi en hefur komið sér vel fyrir á Íslandi og fjölskylda hennar notið góðs af þeim mikla vexti sem hefur verið í íslensku fiskeldi, en heimilismeðlimir una sér afskaplega vel á Þingeyri og framtíðin virðist björt.

„Ég kom fyrst til Íslands árið 2016 og var þá 18 ára gömul. Ég vissi afskaplega lítið um Ísland og hafði ekki einu sinni hugmynd um hvað dagarnir geta verið stuttir á veturna og langir á sumrin á svona norðlægum slóðum. Þetta réðst af hálfgerðri tilviljun, en mér stóð til boða að starfa sem au pair í tvo mánuði hjá fjölskyldu á Akureyri,“ segir Magdalena í viðtali í febrúarblaði 200 mílna.

„Það stóð aldrei til að ílengjast heldur langaði mig bara að upplifa nýja menningu og snúa svo aftur heim til Póllands að ljúka námi en þá gerðist það að mér bauðst vinna hjá fiskvinnslu á Þingeyri og eitt leiddi af öðru.“

Ástin lék stórt hlutverk í að Magdalena skaut rótum á Íslandi, en á Vestfjörðum fann hún eiginmann sinn, sem einnig er af pólskum uppruna og starfaði í sjávarútveginum. „Ég get ekki neitað því að fyrstu árin vakti það fyrir mér að snúa aftur til Póllands og lífið gat verið krefjandi en það hjálpaði mikið hve hlýjar móttökurnar voru á Þingeyri og upplifði ég mig þar ekki sem aðkomumanneskju og innflytjanda heldur sem hluta af góðu samfélagi. Auðveldaði það mér líka að festa hér rætur að í fiskvinnslunni var ekki gerð krafa um að tala ensku, svo að ég gat haft einhverjar tekjur strax í upphafi.“

Í fiskeldisnáminu hjá Háskólanum á Hólum fá nemendur vandaðan undirbúning.
Í fiskeldisnáminu hjá Háskólanum á Hólum fá nemendur vandaðan undirbúning. Ljósmynd/Aðsend

Fiskvinnslustörfin höfðuðu samt ekki sterkt til Magdalenu og skipti hún því um starfsvettvang og réði sig til starfa á leikskóla og hjá sundlauginni á staðnum, og segir hún hlæjandi frá því þegar hún sat atvinnuviðtalið hjá sundlauginni og gat ekkert skilið en svaraði einfaldlega „jájá“ við því sem var sagt og hreppti starfið.

Ekki leið á löngu þar til barn kom í myndina. Magdalena var tvítug þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og bættist annað við þremur árum síðar. „Það var þröngt í búi hjá okkur enda launin ekki há hjá sundlauginni og leikskólanum, en saman höfðum við efni á að leigja litla íbúð þar sem við gátum alið börnin okkar upp. Ég sá samt að ég þyrfti að breyta um stefnu og leggja drög að betri framtíð.“

Smitaðist af áhuganum

Stóra breytingin kom árið 2023 þegar Magdalena fékk starf við fóðrun hjá Arctic Fish, en maðurinn hennar hafði þegar gengið til liðs við fyrirtækið og hvatti Magdalenu til að skoða möguleikana þar. „Ég vissi ekki neitt um fiskeldi en hann vildi endilega að ég prófaði, og var ég að lokum boðuð í viðtal,“ segir Magdalena söguna. „Þar ræddi ég í góðar 40 mínútur við Helga Snæ Ragnarsson, sem þá var forstöðumaður fóðurmiðstöðvarinnar, og talaði hann af svo mikilli ástríðu um fiskeldið að ég gat ekki annað en smitast af áhuganum.“

Magdalena kunni strax vel við sig á nýja staðnum og ekki skemmdi fyrir að hún hækkaði í launum, en það varð líka ljóst að í fiskeldinu biðu hennar dýrmæt vaxtartækifæri. Í Póllandi hafði Magdalena lokið ígildi stúdentsprófs en hún þurfti að bæta við sig menntun á Íslandi til að geta hafið nám á háskólastigi. Fyrst skráði hún sig í fiskeldisdeild Fisktækniskólans, og hjá Menntaskólanum á Ísafirði fékk hún nokkrar viðbótareiningar til að ná upp í íslenska stúdentsprófið. Þá tók við fjarnám hjá Hólaháskóla, þar sem rekin er öflug fiskeldisfræðideild.

„Ég gæti ekki lofað námið á Hólum nógsamlega, og hefur reynsla mín þar verið afskaplega góð. Námið blandar saman fjarnámi og vettvangskennslu og hefur verið einkar ánægjulegt að fara með samnemendum mínum í heimsóknir til eldisfyrirtækja hér og þar um landið,“ segir hún.

Ljósmynd/Aðsend

Starf forstöðumanns fóðurmiðstöðvar er mikið ábyrgðarhlutverk og þó að fóðruninni sé fjarstýrt frá landi í gegnum sjálfvirkan búnað kallar starfið á töluverða þekkingu og ákveðna næmni fyrir þörfum fisksins. „Það þarf að vakta kvíarnar mjög vandlega, fylgjast með ástandi fisksins og vitaskuld tryggja að fiskeldisstöðvunum berist á réttum tíma öll þau aðföng sem þær þurfa, og er skipulagsvinnan því töluverð.“

Ekki er sama hvernig fiskurinn er fóðraður og þarf að tryggja að fóðrið nýtist vel. Magdalena segir að hegðun fisksins geti verið mjög breytileg eftir kvíum og t.d. sé ekki hægt að dreifa fóðri í öllum kvíum á sama tíma dagsins. „Fiskurinn í einni kvínni gæti verið hrifnari af því að fá fóðrið síðdegis en fiskurinn í annarri kví nýtir fóðrið betur ef því er dreift snemma morguns. Maður sér það fljótt í þessu starfi að laxinn getur verið nokkuð snjall fiskur og þykir honum gott að hafa ákveðna reglu á hlutunum.“

Komin í stórt og fallegt hús

Litla fjölskyldan á Þingeyri er ósköp ánægð með hlutskipti sitt í dag. Magdalena segir að þökk sé fiskeldinu hafi tekjur heimilisins batnað til muna og börnin þrífist afskaplega vel. „Á þeim launum sem ég var með áður hefðum við aldrei getað látið verða af því að kaupa okkur stórt og fallegt hús þar sem fer mun betur um okkur en í leiguíbúðinni þar sem við bjuggum áður. Staðan væri allt önnur ef ekki væri fyrir Arctic Fish og myndi það þá eiga við um okkur og marga aðra sem búa hér á svæðinu að það væri einfaldlega engin góð störf að fá.“

Þó svo að Magdalena rækti enn tengslin við Pólland segir hún núna ljóst að hún sé ekki á förum frá Íslandi í bráð. „Við höfum verið hér svo lengi og finnum hvað tengslin eru orðin sterk. Svo er þetta líka afskaplega góður staður til að ala upp börn og hugsa ég að það sé algjört lán fyrir börnin að fá að vaxa hér úr grasi. Hér finnst okkur við eiga heima.“

Viðtalið birtist fyrst í febrúarblaði 200 mílna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.3.25 585,74 kr/kg
Þorskur, slægður 3.3.25 568,47 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.3.25 400,86 kr/kg
Ýsa, slægð 3.3.25 389,41 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.3.25 296,39 kr/kg
Ufsi, slægður 3.3.25 323,75 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 30.1.25 16,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 19.2.25 170,00 kr/kg
Gullkarfi 3.3.25 234,74 kr/kg

Fleiri tegundir »

3.3.25 Fjóla SH 7 Plógur
Hörpudiskur 1.376 kg
Samtals 1.376 kg
3.3.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Ýsa 717 kg
Þorskur 67 kg
Karfi 10 kg
Steinbítur 10 kg
Langa 10 kg
Hlýri 8 kg
Keila 5 kg
Samtals 827 kg
3.3.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Þorskur 727 kg
Ýsa 453 kg
Steinbítur 43 kg
Hlýri 20 kg
Keila 10 kg
Langa 9 kg
Karfi 7 kg
Samtals 1.269 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.3.25 585,74 kr/kg
Þorskur, slægður 3.3.25 568,47 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.3.25 400,86 kr/kg
Ýsa, slægð 3.3.25 389,41 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.3.25 296,39 kr/kg
Ufsi, slægður 3.3.25 323,75 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 30.1.25 16,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 19.2.25 170,00 kr/kg
Gullkarfi 3.3.25 234,74 kr/kg

Fleiri tegundir »

3.3.25 Fjóla SH 7 Plógur
Hörpudiskur 1.376 kg
Samtals 1.376 kg
3.3.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Ýsa 717 kg
Þorskur 67 kg
Karfi 10 kg
Steinbítur 10 kg
Langa 10 kg
Hlýri 8 kg
Keila 5 kg
Samtals 827 kg
3.3.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Þorskur 727 kg
Ýsa 453 kg
Steinbítur 43 kg
Hlýri 20 kg
Keila 10 kg
Langa 9 kg
Karfi 7 kg
Samtals 1.269 kg

Skoða allar landanir »